„Fögnum því að horfið hafi verið frá málsókn“

02.06.2021 - 13:39
Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Biskupsstofa fagnar þeirri ákvörðun Akureyrarkirkju að falla frá skaðabótakröfu á hendur ungum manni, sem var valdur að tjóni á kirkjunni árið 2017. Sóknarnefnd kirkjunnar tilkynnti í gær, að eftir fréttaflutning af málinu hefði kirkjan ákveðið að draga skaðabótakröfu sína til baka.

Skemmdarverk á fjórum kirkjum

Í janúar árið 2017 voru skemmdarverk unnin á fjórum kirkjum á Akureyri. Skrifuð voru hatursfull skilaboð með úðabrúsa á kirkjurnar. Það voru Glerárkirkja, kaþólska kirkjan, Hvítasunnukirkjan og Akureyrarkirkja. Sú síðastnefnda fékk líklega verstu útreiðina en tilraunir til að þrífa spreyið af báru lítinn árangur. Því þurfti að skipta um klæðningu á kirkjunni, verk sem kostaði tæpar tuttugu milljónir króna.

Saksóknari lét málið niður falla

Ungur maður var handtekinn skömmu eftir eftir verknaðinn. Maðurinn var kærður fyrir eignaspjöll og sleppt að lokinni yfirheyrslu. Saksóknari lét hins vegar málið niður falla þar sem hann var talinn ósakhæfur. 

Fólk hafði samband eftir fréttaflutning

Í síðustu viku greindum við frá því að Akureyrarkirkja ákveðið að höfða einkamál á hendur manninum og fara fram á tæplega 21 milljón króna í skaðabætur. Þeirri ákvörðun var snúið í morgun, samkvæmt tilkynningu frá kirkjunni.

Sjá einnig: Falla frá skaðabótamáli eftir umfjöllun fjölmiðla

„Í kjölfar fréttaflutnings af dómsmálinu hafði margt gott fólk samband við sóknarnefnd og lýsti vilja til að leggja henni lið ef hægt væri að finna aðrar leiðir til að mæta kostnaði við lagfæringu vegna skemmdanna,“ segir í tilkynningu frá Akureyrarkirkju. Þar segir einnig að sóknarnefnd hafi fengið til sín hóp fólks sem ætlar að stýra fjáröflun til þess að hægt sé að greiða fyrir lagfæringar á kirkjunni.

Komu ekki að málinu með formlegum hætti  

Pétur Georg Markan samskiptastjóri Þjóðkirkjunnar segir Þjóðkirkjuna ekki hafa komið að málinu með formlegum hætti. „Sóknir fara sjálfar með sín mál en auðvitað þegar upp koma flókin mál þá veitum við leiðsögn og sóknir njóta aðstoðar hjá okkur. Við komum hins vegar ekki að þessu máli á neinn formlegan hátt. En ég get sagt að það er okkar afstaða að þetta sé farsæl lausn og við fögnum því að horfið hafi verið frá málsókn,“ segir Pétur.