Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Finnst hún komin á núllpunkt eftir áralanga baráttu

02.06.2021 - 18:58
Mynd: Freyr Arnarson / Freyr Arnarson
Kona sem beðið hefur eftir geðþjónustu í fimm ár segir rosalega vont að láta fólk vera í biðstöðu, peningaáhyggjur og leiði bæti ekki úr skák. Hún er á biðlista eftir tíma hjá geðlækni og hefur beðið í fimm ár eftir meðferð við ADHD.

Missti draumastarfið

Brynja Björk Hjördísardóttir, hársnyrtir, var greind með geðhvörf fyrir rúmum fimm árum og hefur verið mikið frá vinnu síðan. „Ég missti í rauninni vinnuna mína, draumavinnuna, draumavinnustaðinn. Þannig að ég er að flosna upp úr vinnu í fimmta sinn síðan 2011 vegna heilsu.“ Hana dreymir um að opna eigin stofu en nú er framtíðin óviss. Veikindin einkennast af miklum kvíða og oft finnst henni erfitt að takast á við aðstæður.

Það tók Brynju Björk mörg ár að fá geðhvarfagreininguna í gegn en henni fannst sú greining ekki ná nógu vel yfir einkenni sín. Seinna sótti hún því um ADHD-greiningu. Hún beið í tæp fjögur ár eftir fyrsta símtalinu frá ADHD-teymi Landspítalans en í fyrravor fékk hún greininguna og staðfestingu á því að hún þyrfti lyf við athyglisbrestinum. Núna ári síðar hefur hún ekki fengið lyfin, ástæðan er sú að hún veiktist af geðhvörfunum í millitíðinni. „Ég var óstabíl og því var mér bent á að það gengi ekki að fara í lyfjagjöf við ADHD,“ útskýrir hún. 

Biðin erfið

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson

Hún leitaði nokkrum sinnum á bráðamóttöku geðdeildar í vetur og fékk þá fleiri lyf við geðhvörfunum. Eftir áralanga baráttu finnst Brynju hún nú vera komin á núllpunkt, hún er enn að bíða eftir símtali frá ADHD-teyminu en hefur líka óskað eftir tíma hjá sjálfstætt starfandi geðlækni. Þar er biðtíminn oft yfir ár og enn sem komið er hefur Brynja ekki fengið nein svör um hvenær hún kunni að komast að. „Það er rosalega vont að láta fólk vera í svona biðstöðu, fyrir utan það að ef það er eitthvað sem hefur áhrif á andlega líðan, þá eru það peningaáhyggjur og leiði. Það hjálpar ekki,“ segir hún.  

Segir veikindin ekki bara snúast um sig

Brynja er búin að fullnýta rétt til endurhæfingarlífeyris og bíður nú eftir því að fá úr því skorið hvort hún eigi rétt á tímabundnum örorkulífeyri. „Svo getur vel verið að svarið verði bara því miður, þú stenst ekki og hvað þá? Ég vil vinna, ég vil geta stundað mitt og þetta bitnar á öllum, á fjölskyldu manns, börnunum, manninum mínum. Þetta er ekkert bara ég. Þannig að ég held það þurfi að fara að skoða þessi mál, það eru margir í verri stöðu en ég,“

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson

Upplifði annað viðmót í Noregi

Brynja bjó um tíma í Noregi, þar fékk hún greiningu á nokkrum sólarhringum, það tók hana nokkur ár, blóð, svita og tár að fá sömu greiningu hér. Hún upplifir mikinn mun á kerfum landanna tveggja.