Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bið vanfjármögnun að kenna en ekki styttingu vinnuviku

Mynd: BSRB / BSRB
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, segir biðlistar á sjúkrahúsum lengjast vegna vanfjármögnunar í heilbrigðiskerfinu, vegna langtímaveikinda starfsfólks og þess að fólk er að minnka við sig starfshlutfall vegna lífeyristöku. Hún var í viðtali í síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag þar sem hún kvað mönnunarvanda sjúkrahúsanna eiga sér langa sögu.

Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir var í viðtali þar í gær og lýsti því hvernig stytting vinnuvikunnar hefði áhrif á hans starfsvið. Hann telur styttinguna auka álag á starfsfólk aukist mjög. Það sé einkum vegna skorts á starfsfólki. 

Einni skurðstofu hafi verið lokað og því verði að setjast yfir þessi áform til að ástandið versni ekki um of.  

Nú er liðinn mánuður frá því að stytting vinnuvikunnar var tekin upp 1. maí hjá vaktavinnufólki. Sonja Ýr segir það vera ótrúlega stóra kerfisbreytingu sem fylgi einhverjir hnökrar. 

Allt samkvæmt áætlun

Sonja lítur svo á að allt gangi samkvæmt áætlun og framar björtustu vonum. Þó megi má búast við aðlögunartíma fram á haust. Tómas hélt því fram að biðlistar væru að lengjast vegna styttingar vinnuvikunnar. 

„Mönnunarvandi heilbrigðiskerfisins hefur verið til í mörg ár. Við erum að krefjast breytinga á því. Þess vegna eru opinberir launagreiðendur og launþegar að sammælast um að gera eitthvað til að snúa við þessari þróun.“

Sonja segir skort á starfsfólki auðvitað vera grafalvarlegt mál en verið sé að breyta kerfinu til að laða að fólk og til að tryggja öryggi, heilsu og jafnvægi í vinnu og einkalífi. „Það er auðvitað grafalvarlegt að fólk skorti, en þetta er ein aðgerð til að vinna bug á því og reyna að laða fólk til starfa.“

Sonja segir það einkenna starfsfólk í heilbrigðisþjónustu að hafa valið að vera í lækkuðu starfshlutfalli vegna þess hve þung störfin eru og ófjölskylduvæn. „Stytting vinnuvikunnar, betri vinnutími, gerir þeim kleift að vinna jafnmarga tíma og áður en hækka starfshlutfallið.“

Það sé gagnkvæmur ávinningur fyrir starfsfólkið og atvinnurekendur. Margir þættir spili því saman og því sé mikilvægt að taka umræðuna á grundvelli sanngirni.

Gömul krafa vaktavinnufólks um viðurkenningu starfshlufalls

Aðspurð segir Sonja 96% starfsfólks í hlutastörfum hafa hækkað starfshlutfall. „Já, það var stór forsenda fyrir því að þetta gengi upp. Það hefur verið krafa vaktavinnufólks að viðurkennt sé að 80% vinna jafngildi 100% starfi eða launum.“

Starfsfólk vinni annað hvort jafn marga tíma eða hefur bætt við sig. „Með þessum breytingum er raunverulega verið að stytta úr 40 stundum í 36 og jafnvel hægt að stytta enn frekar eftir því sem þau ganga þyngri vaktir, þannig að það verði 32 stundir.“

Hún segir að rýna þurfi í ýmsa þætti vaktavinnunnar og allir þurfi að fara gegnum umbótaferli. Stytting vinnuvikunnar sé ákveðin áskorun en að orðinn sé til grundvöllur að umræðu um hvernig bæta megi starfsumhverfið og þjónustuna. 

„Rýna þarf í verkefnin, verklagið og tímastjórnunina og skipulag vaktanna, sem er eitt stærsta atriðið. Þannig að þá opnast ákveðin tækifæri og það er vitað að þegar svona stórar breytingar eru framundan vilja kannski ekki allir fylgja þeim takti og vilja hafa hlutina óbreytta.“

Svíþjóð er fyrirmyndin

Sonja segir að Svíþjóð hafi verið fyrirmynd þegar verið var að setja styttingu vinnuvikunnar á dagskrá hjá BSRB. „Það eru dæmi um skurðstofur þar sem byggt var á svokölluðu Toyota módeli sem flestir þekkja frá Gautaborg og virðist vera fyrsti vinnustaðurinn sem ákveður að stytta vinnuvikuna.“

Hún segir þá ákvörðun hafa verið tekna hjá Toyota að vinnudagurinn var styttur í sex tíma og búnar til tvær vaktir. Þannig hafi mátt þjónusta fleiri, auka afköst og bæta reksturinn.

„Til eru dæmi um skurðstofur sem hafa tileinkað sér þetta módel, þannig að þau eru þá að auka afköstin, gera fleiri aðgerðir. Þetta er alþjóðlegur vandi, það er sami vandinn í Svíþjóð varðandi skorti á starfsfólki og sérhæfðu.“

Sonja segist finna mikla þreytu í fólki enda sé búið að vera mikið álag vegna COVID-19.

Vill hrósa starfsfólki og stjórnendum

Stytting vinnuvikunnar er til að minnka álag og streitu. Er þetta ekki tekið að falla um sjálft sig þegar fjöldi fólks hefur aukið við sig starfshlutfall? 

Sonja segir mikinn viðsnúning felast í viðurkenningu á því að 32 stunda vinnuvika hjá þeim sem hafi þunga vaktbyrði sé 100% starf. Það sé risastórt skref.

„Þetta hljómar öfugsnúið en þegar fólk er búið að fyrirbyggja eigið heilsutjón eða er að passa upp á að geta sinnt fjölskyldunni með því að lækka starfshlutfallið og það er sjálft að taka á sig launatapið sem því fylgir.“

Mikil vinna sé að undirgangast breytingu af þessu tagi og því vilji Sonja hrósa starfsfólkinu.

„Mikið hefur mætt á þeim og stjórnendum. Það er ótrúlegt afrek að hafa náð þessu saman. Það er auðvitað ekki þannig að allt verði fallið í ljúfa löð um leið og þetta var tekið upp 1. maí, þetta er aðlögun, fólk er búið að vinna eins í áratugi og jafnvel erfa ákveðið vinnulag. Nú þarf að hugsa hlutina upp á nýtt.“

Fáið þið á tilfinninguna að vinnustaðir hafi ekki verið nægilega vel undirbúnir?

„Við bjuggum til mikið stjórnskipulag í kringum þetta, erum með sérstakan stýrihóp sem er að stýra verkefnu. Stór hluti var að útbúa fræðslu og setja þetta upp í tímaáætlun, með áföngum innleiðingarinnar. Síðasta varðan var launaútborgunin núna sem virðist hafa heppnast vel.“

Nú sé horft til haustins enda sé starfsemi og mönnun með öðrum hætti yfir sumartímann en endranær.

„Skilaboðin sem við fáum eftir mánuðinn eru þau að allir séu brosandi, mjög ánægðir og finni fyrir lífsgæðaaukningunni sem fylgi styttingunni. Styttingin hefur haft áhrif á þjónustuna líka, það er líka gagnkvæmur ávinningur því fjarvera vegna veikinda er minni og útlagður kostnaður við vaktavinnu við að fjölga fólki þar sem það þarf er að skila að flest öllu leyti til baka í öðrum þáttum.“