Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bandaríkjastjórn fús að upplýsa um njósnamál

Mynd: Mynd af Youtube / Youtube
Karine Jean-Pierre, talsmaður Hvíta hússins, sagði í gærkvöld að Bandaríkjastjórn væri fús að svara öllum spurningum varðandi njósnir um evrópska bandamenn. Þetta er hið fyrsta sem heyrist frá Bandaríkjastjórn um hleranir þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna, NSA, í samvinnu við leyniþjónustu danska hersins. Jean-Pierre, sem er aðstoðarblaðafulltrúi Joe Bidens forseta, svaraði spurningum blaðamanna um borð í forsetaflugvélinni Air Force Once í gær. Hún var spurð um hleranir NSA í Evrópu.

Jean-Pierre sagði að Bandaríkjastjórn ætlaði að vinna með evrópskum bandamönnum og fjalla um um allar spurningar samkvæmt hefðbundnum samskiptaleiðum þjóðaröryggismála.

We will work with our European allies and partners to address any questions through the appropriate national security channels.
 

Njósnir í samvinnu við Dani

NSA notaði notaði fjarskiptakapla sem tengjast Danmörku til að hlera símtöl og rafræn samskipti evrópskra ráðamanna, stofnana og fyrirtækja. Vitað er að njósnað var um ráðamenn í Frakklandi, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi og hefur málið valdið úlfúð og reiði. Angela Merkel, Þýskalandskanslari, Emmanuel Macron, forseti Frakklands, Stefan Löfven og Erna Solberg, forsætisráðherrar Svíþjóðar og Noregs hafa lýst undrun og krafið Bandaríkjamenn og Dani skýringa.

Utanríkisráðherra krafði Dani skýringa

Hið sama hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, gert, hann sagði á Alþingi að málið væri grafalvarlegt og græfi augljóslega undan trausti í samskiptum þessara miklu vina og bandalagsþjóða. Utanríkisráðuneytið hefði krafist skýringa frá Dönum.

Ekkert komið fram um njósnir um Íslendinga

Sæstrengurinn DanIce liggur milli Íslands og Danmerkur og um hann fara mikil rafræn samskipti. Ekkert hefur raunar komið fram í uppljóstrunum um málið sem bendir til þess að njósnað hafi verið um Ísland eða Íslendinga. Engu að síður hafa bæði Guðlaugur Þór og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagt málið mjög alvarlegt. Katrín kvaðst í viðtali við Spegilinn hafa áhyggjur af því hvaða áhrif þetta geti haft á traust á milli Norðurlandaþjóðanna. Guðlaugur Þór á símafund með Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, á allra næstu dögum þar sem málið verður rætt.

Danir fámálir um njósnirnar

Samkvæmt dönskum fjölmiðlum hefur Trine Bramsen vitað um njósnirnar frá því í ágúst í fyrra. En hvorki hún né aðrir danskir ráðamenn sáu ástæðu til þess að upplýsa Norðmenn eða Svía um njósnirnar og danska stjórnin ekki gefið neinar skýringar. Kannski koma þær skýringar nú frá Washington samkvæmt því sem Karin Jean-Pierre sagði fréttamönnum um borð í forsetaþotunni í gær.

Fréttin hefur verið uppfærð.