Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Á fimmta þúsund fólksbíla nýskráð á árinu

Mælaborð í bíl.
 Mynd: naeem mayet - Freeimages
Alls voru skráðir 1.338 nýir fólksbílar í maímánuði sem er 159% aukning frá sama tíma í fyrra þegar þeir voru 519 talsins. Heildarsalan hefur aukist um næstum 25% fyrstu fimm mánuði ársins samanborið við árið 2020. Bílaleigur keyptu margfalt fleiri bíla í maí en á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Bílgreinasambandsins. Það sem af er ári hafa verið keyptir 4.208 nýir fólksbílar en á sama tíma í fyrra voru þeir 3.369. Einstaklingar keyptu 2.100 bíla fyrstu fimm mánuðina, þar af 460 í maí-mánuði. 

Nýorkubílar svokallaðir eiga sífellt stærri hluta markaðsins á Íslandi en ríflega 62% nýskráðra á árinu ganga fyrir rafmagni að hluta eða öllu leyti. KIA er mest selda einstaka bíltegundin í maí, Toyota kemur þar á eftir og Suzuki er í þriðja sæti.

Fyrirtæki, önnur en bílaleigur, keyptu 123 nýja bíla í maí og alls 11% fleiri það sem af er ári en 2020. Bílaleigurnar virðast teknar til við að endurnýja flota sinn enda keyptu þær 750 bifreiðar í maí núna en aðeins 47 í fyrra.