Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þátttakan ásættanleg en niðurstaðan vonbrigði

01.06.2021 - 12:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Tveir þriðju hlutar þeirra sem tóku þátt í ráðgefandi íbúakosningu um aðalskipulag Oddeyrar kusu með því að þar rísi þriggja til fjögurra hæða hús. Rúmur fjórðungur bæjarbúa tók þátt í kosningunni. Forseti bæjarstjórar segir þátttökuna ásættanlega.

Málið umdeilt

Hæð bygginga á svokölluðum Gránufélagsreit á Oddeyri á Akureyri hefur verið bitbein undanfarin misseri. Málið vakti mikla umræðu eftir að verktaki kynnti hugmyndir um háhýsi á reitnum og sitt sýnist hverjum. Til að kanna hug íbúa ákváðu bæjaryfirvöld að efna til ráðgefandi íbúakosningar þar sem kosið var um þrjár útfærslur. Tæplega þrjú þúsund og níu hundruð íbúar tóku þátt og niðurstaðan er nokkuð afgerandi. Sextíu og sjö prósent kusu með gildandi skipulagi sem gerir ráð fyrir að hús á reitnum geti verið 3-4 hæðir. Átján prósent kusu með 6-8 hæðum. Þá völdu 14 prósent tillögu sem gerir ráð fyrir 5-6 hæða húsum.

Halla Björk Reynisdóttir forseti bæjarstjórar er ánægð með þátttökuna. „Þetta er náttúrlega afdráttarlaus niðurstaða, við fórum af stað með þetta sem svona ákveðna tilraun til íbúasamráðs og í því tilliti hefur þetta bara tekist vel. Mér finnst þáttakana hafa verið bara bærilega góð."  

En 26 prósent þátttaka, er það ásættanlegt?

„Já ég held það sé bara ásættanlegt, þetta er eins og ég segi í fyrsta sinn sem við prófum þetta og miðað við að það tóku 66% þátt í sveitarstjórnarkosningum þá tel ég að þetta sé bara ásættanleg þáttaka."

Niðurstaðan vonbrigði

Halla segir niðustöðuna ákveðin vonbrigði.  „Já fyrir mér persónulega eru þetta vonbrigði, ég hefði vilja sjá eitthvað hærra en þetta liggur fyrir og við þurfum að vinna úr því og bæjarstjórn tekur þetta til umræðu núna."