Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stærstu fyrirtækin fengu langmest út úr Ferðagjöfinni

Mynd: MIKKO PIHAVAARA / EPA
Tíu fyrirtæki, nær öll mjög stór á íslenskum markaði, fengu meira en þriðjung heildarfjárhæðar Ferðagjafarinnar. Fyrirtækin skiluðu samtals yfir fimm milljörðum króna í hagnað árið 2019. KFC, Dominos og Hlöllabátar fengu meira í kassann heldur en ferðaþjónustufyrirtæki í heilu landshlutunum. Meira en milljarður fór úr ríkiskassanum í átakið á einu ári.

Ný ferðagjöf aðgengileg í dag

Ferðagjöfin var ein af tilraunum stjórnvalda til bjargar atvinnulífinu í faraldrinum. Önnur varð svo aðgengileg í dag, sem gildir út september.

„Hún er kynnt til leiks í þeirri von að landsmenn nýti frekar innviði ferðaþjónustunnar en ella hefði orðið og bæti atvinnugreininnu að einhverju leyti fyrirsjáanlegan samdrátt á árinu,” sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra á Alþingi síðasta vor þegar átakið var kynnt til leiks. 

Milljarður á einu ári

Ferðagjöfin er fimm þúsund króna stafræn inneign sem allir fullorðnir Íslendingar gátu nýtt sér til að ferðast innanlands. Og frestur til þess rann út á miðnætti. Eins og okkar er von og vísa þá varð allt vitlaust í gær og nærri tíu þúsund manns náðu að ráðstafa gjöfinni á einn eða annan hátt, en þrátt fyrir það þá nýttust ekki tæplega 20 þúsund gjafir. Gildistíminn var framlengdur aftur og aftur og á miðnætti í gær var rúmur milljarður kominn inn í hagkerfið í formi gjafarinnar. 

Heimkaup vinsælt 

Langflestir notuðu ferðagjöfina á höfuðborgarsvæðinu. Suðurland er í öðru sæti og Norðausturland í því þriðja. Norðvesturland og Vestfirðir fengu minnst, tæpar 20 milljónir á haus. Veitingageirinn halaði inn rúmum 400 milljónum, gististaðir um 230, afþreyingarflokkurinn fékk rúmar 200 og samgöngurnar um 120 milljónir. 

Þess má geta að fyrirtækið sem rekur Heimkaup, og Dominos pítsa, fengu nákvæmlega jafn mikið af viðskiptum í formi ferðagjafarinnar og allt Norðvesturland og Vestfirðir samtals, eða 35 milljónir. 

Fimm milljarða hagnaður vinsælustu fyrirtækjanna

Risaflughermirinn á Granda í Reykjavík var hlutskarpastur í hópi stakra fyrirtækja, með 53 milljónir. Olíufyrirtækin N1 og Olís koma svo á eftir með um 50 milljónir á haus. Skyndibitakeðjurnar KFC, Dominos og Hlöllabátar fengu líka töluvert í kassann, sömuleiðis tvær stærstu hótelkeðjur landsins, Bláa lónið og Flugfélag Íslands. 

Þessi tíu stöndugu fyrirtæki fengu samtals um 335 milljónir í formi ferðagjafar stjórnvalda, eða meira en þriðjung af heildinni. Samkvæmt ársreikningum fyrirtækjanna tíu skiluðu þau samtals 5,1 milljarði í hagnað árið 2019.