Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sjálftökupróf eru framtíðin í leghálsskimun

Mynd með færslu
Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins stefnir að því að bjóða konum sjálftökupróf til að skima fyrir HPV-veirunni í leghálsi. Í lok árs eiga sjálftökupróf að verða valmöguleiki samhliða hefðbundnum skimunum, til dæmis fyrir konur sem vilja ekki eða geta ekki vegna búsetu, farið í leghálsskimun. Sigríður Dóra Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga á Heilugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að í framtíðinni taki sjálftökupróf alfarið við af hefðbundnum leghálsskimunum. 

Sjálftökupróf er skimunarpróf sem kona tekur sjálf heima hjá sér eða á heilsugæslunni en er rannsakað á rannsóknarstofu. Heilsugæslan vinnur að því að innleiða sjálftökuprófin hér á landi í samstarfi við Hvidovre-sjúkrahúsið í Danmörku. 

„Helsti annmarki sjálftökuprófs er að aðeins er hægt að rannsaka hvort konan hafi HPV. Ef konan hefur HPV þarf að taka hefðbundið skimunarsýni. Ef konan hefur ekki HPV þá er henni boðin skimun eftir 3 eða 5 ár í samræmi við skimunarleiðbeiningar embættis landlæknis. Vonast er til að þessi nýjung verði aðgengileg seint á árinu,“ segir á vef heilsugæslunnar. Sigríður Dóra segir þó að þrátt fyrir að kona greinist með HPV-veiruna kunni hún að losna við hana, því megi bíða í einhvern tíma með að skoða frumubreytingar. 

Samkvæmt heilsugæslunni hefur árangur af sjálftökuprófum verið góður í Svíþjóð, en þau voru notuð í kórónuveirufaraldrinum þegar fólki var ráðlagt að koma ekki inn á heilsugæslustöðvar. „Svíþjóð var með fyrstu þjóðum að hefja HPV bólusetningar hjá stúlkum í 11-12 ára bekk grunnskóla en jafnframt var stúlkum boðið HPV bólusetning til 26 ára aldurs (catch-up vaccination). Sjálftökupróf henta sérlega vel þar sem algengi HPV sýkinga er lágt eins og hjá bólusettum konum og eldri aldurshópum kvenna,“ segir á vef heilsugæslunnar.