Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Renna blint í sjóinn með „drop-in brúðkaup“ í sumar

01.06.2021 - 11:41
Mynd með færslu
 Mynd: Grafarvogskirkja
Grafarvogskirkja hefur auglýst svokölluð drop-in brúðkaup í lok júní, þar sem fólki er boðið upp á giftingar með litlum fyrirvara. Athafnirnar verða um hálftíma langar og brúðhjónum að kostnaðarlausu. Guðrún Karls Helgudóttir Grafarvogsprestur segir að kirkjan vilji hvetja til brúðkaupa en prestarnir hafi enn ekki hugmynd um það hver aðsóknin verður.

„Við rennum eiginlega bara alveg blint í sjóinn með þetta, vitum ekkert hvort það hentar fólki að droppa bara inn og gifta sig,“ segir Guðrún. Prestarnir hafi orðið varir við þó nokkurn áhuga og nokkrir hafi nú þegar bókað. Gott sé að tilvonandi hjón hafi samband við kirkjuna áður þótt fyrirvarinn þurfi ekki að vera langur.

Sænsk fyrirmynd

Guðrún var áður prestur í Svíþjóð og þar hafa drop-in brúðkaup og drop-in skírnir tíðkast. Prestarnir í Grafarvogskirkju hafa velt þessu fyrir sér í nokkur ár og upphaflega var stefnt á Valentínusardaginn. „En síðustu tveir hafa ekki verið góðir vegna COVID. Okkur fannst þetta bara upplögð tímasetning núna í júní,“ segir hún. 

„Við erum að hugsa um fólk sem alltaf er á leiðinni að gifta sig en lætur aldrei verða af því. Nú hefur líka mikið af fólki frestað hjónavígslum útaf COVID undanfarið ár og er svolítið farið að fresta aftur núna vegna þess að nú er beðið eftir að allir verði bólusettir. En þarna er kannski kominn möguleiki á að drífa bara í þessu, eða láta verða af þessu,“ segir Guðrún. 

Brúðarmarsinn inn og Mendelssohn út

Hver er munurinn á drop-in brúðkaupi og venjulegu brúðkaupi?

„Þú náttúrulega hefur lengri tíma þegar þú bókar kirkjuna fyrir brúðkaup venjulega. Þá gerum við ráð fyrir einum og hálfum tíma í kirkjunni. Og um helgar þarf að borga fyrir athöfnina og tónlistina, þannig að þú sparar alltaf eitthvað. En í drop-in brúðkaupunum þarf fólk samt ekkert að hlaupa út þegar það er búið, athöfnin ætti ekki að vera löng svo það ætti alveg að gefast tími fyrir myndatökur. Svo verður vonandi gott veður,“ segir Guðrún. „Það er í boði brúðarmarsinn inn og Mendelssohn út, og svo er hægt að koma með óskir um annað, svona innan eðlilegra marka.“

Brúðkaup ekki endilega svo mikið mál

Með þessu fyrirkomulagi vill kirkjan hvetja til brúðkaupa. En hvers vegna?

„Ef fólk á annað borð ætlar að vera saman, og ég tala nú ekki um ef það á börn saman, eða eignir eða skuldir, þá er öruggara að vera gift ef eitthvað kemur upp. Fólk er bara oft að lenda í erfiðleikum vegna þess að það var ekki búið að gifta sig. Það er ekki þannig að fólk hafi sömu réttindi þótt það hafi verið í sambúð lengi. Okkur langar líka að minna á að þótt fólk gifti sig í kirkju þarf það ekki að vera svo mikið mál.“

Veistu til þess að þetta hafi verið gert áður hér á landi?

Nei, ég veit ekki til þess. Nei, ég held ekki, nei.“ 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV