Óttaðist að tapa nánum vinum sínum

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

Óttaðist að tapa nánum vinum sínum

01.06.2021 - 12:59

Höfundar

Alexandra Briem sagði engum frá því að hún væri trans kona því að hún vildi ekki vera með vesen gagnvart fjölskyldu sinni og vinum. Hún bar harm sinn í hljóði og líðan hennar versnaði stöðugt. Þegar hún fékk lyf við athyglisbresti var hún loks tilbúin að takast á við kynáttunarvanda sinn.

Alexandra Briem er nýr forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Alexandra varð varaborgarfulltrúi í sveitastjórnarkosningunum 2018 og hafði þá verið virk í grasrótarstarfi Pírata. Hún segist sjálf vera nörd sem vill helst nýta sunnudagana í að horfa á gamla Star Trek-þætti en hefur minni tíma til þess núna en oft áður. 

Alexandra er fædd 1983 í Reykjavík og hefur búið þar alla tíð. Hún er alin upp á afar tónelsku heimili en pabbi hennar, Valgarð Guðjónsson, er söngvari Fræbbblanna. Alexandra segir þó að músíkölsku genin hafi algjörlega stokkið fram hjá henni. Hún hafi þó mögulega erft pönkgenið frá foreldrum sínum. 

Alexöndru gekk vel í grunnskóla þrátt fyrir athyglisbrest og segst lítið hafa truflað aðra nemendur heldur frekar verið föst í eigin hugarheimi og því var athyglisbresturinn ekki greindur fyrr en hún var um þrítugt. Hann hafði meiri áhrif á hana í framhaldsskóla en þó tókst henni að útskrifast úr MR. Athyglisbresturinn í bland við kynáttunarvanda gerði henni þó sífellt erfiðara um vik eftir því sem árin liðu og leiddi til þess að hún hætti í læknisfræði. „Þegar þarna er komið sögu er ég orðin mjög plöguð af þessu, að vera ekki í réttum líkama. Eftir því sem kynþroskinn ágerist og þú upplifir að þú ert ekki að fara í þá átt sem þér líður vel með. Ég var stór og sterk, myndarleg, margir karlmenn verið sáttir með það sem ég fékk í vöggugjöf. En þetta var ekki það sem ég vildi. Eftir því sem ég verð eldri og fullorðnari því meira afgerandi og óþolandi verður það. Á endanum fer ég að vera mjög plöguð af hugsunum um þetta,” segir Alexandra.

Umræðan um málefni trans fólks var ekki mjög opin á þessum árum og hugmyndir margra um trans fólk mótaðist af bíómyndum og gamanþáttum í sjónvarpi. „Við erum augljóslega að verða meira samþykkt með tímanum, þessi neikvæða grín-umfjöllun er fyrsta skrefið í að komast inn í hugarheim fólks. Nauðsynlegt fyrsta skref áður en hlutirnir verða betri. En það er ekkert skemmtilegur tími,” segir Alexandra. 

Þrátt fyrir að eiga stuðningsríka fjölskyldu opnaði Alexandra sig aldrei um líðan sína. Hún sagðist hafa bitið í sig sem barn að þetta væri eitthvað skrítið og hún þyrfti að takast á við þetta í hljóði. Á unglingsárunum gat hún aflað sér upplýsinga á netinu og sá að hún var ekki skrítin heldur væri þetta raunveruleiki sem margir glímdu við. „Samt tekur það mig svolítinn tíma að samþykkja að þetta sé málið, að þetta sé ekki bara forvitni. Það er pínu gegnumgangandi að trans fólk sem er mikið inni í eigin heimi framan af heldur að allir séu svona forvitnir um hvernig væri að vera hitt kynið,” segir Alexandra. 

Á seinni stigum unglingsáranna hafði Alexandra áttað sig á því að hún væri trans. En var einnig búin að ákveða að það væri of mikið vesen að gera eitthvað í því. Hún vildi ekki gera þetta að stórmáli fyrir fólkið í kringum sig. „Það er skemmst frá því að segja að það er það heimskulegasta sem ég hef nokkurn tímann ákveðið,” segir hún. 

Árin liðu og alltaf plagaði þetta hana. „Ég ætla ekki að fara út í það hvað ég átti sorglegt sumar 2004 þegar ég var við það að falla úr læknisfræðinni, þurfti að taka endurtektarpróf en gat ekki fyrir mitt litla líf einbeitt mér að því. Þarna var að blandast saman athyglisbresturinn, þunglyndi út af kynáttuninni og líka var ég að verða alltof þung,” segir Alexandra. 

Hún byrjaði örlítið að opna sig við vini sína undir þrítugt en einungis undir áhrifum áfengis og þá bara við fólk sem var ekki mjög náið henni því að hún óttaðist að missa nána vini út af þessu. Hún fékk þó einungis jákvæð viðbrögð þegar hún opnaði á umræðuna. Þrátt fyrir það treysti hún sér ekki strax til að tala við transteymið eða koma út sem trans fyrir nánum vinum og fjölskyldu. 

Hún segist óska þess í dag að hún hefði komið fyrr út. „Ég var mjög upptekin af því að búa ekki til vandamál fyrir annað fólk, sem er algjör vitleysa. Fólkið í kringum okkur, sem elskar okkur, auðvitað vill það að okkur líði vel." Hún segist átta sig á því núna hvað hún var mikið flón að byrgja þetta inni öll þessi ár.

Árið 2016 var athyglisbresturinn loksins greindur. Þá fór Alexandra að taka lyf við honum og við það hófst nýr kafli í lífi hennar. Hún sóttist þá eftir að komast í greiningu hjá trans-teyminu. Það ferli tók 18 mánuði og þá gat hún fljótlega byrjað í hormónameðferð. Eftir árslanga hormónameðferð fór Alexandra í brjóstnám og andlitsaðgerð á Spáni. Það var svo í fyrravor, rétt áður en COVID-19 faraldurinn skall á, að Alexandra fór í stóra aðgerð á Landspítalanum. 

Hægt er að hlusta á viðtalið við Alexöndru Briem hér.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

„Ég lofa því að gera mitt besta“

Alexandra verður forseti borgarstjórnar