Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Milljarða viðsnúningur Síldarvinnslunnar vegna loðnu

Mynd með færslu
Mynd: svn.is Mynd:
Hagnaður Síldarvinnslunnar á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 21,1 milljón bandaríkjadala, eða 2,7 milljörðum króna miðað við gengi dollarans í lok fjórðungsins. Tekjur voru 6,7 milljarðar. Eigið fé Síldarvinnslunnar í lok mars var rétt tæpir 45 milljarðar, eignir rúmlega 77 milljarðar og skuldir 32,3 milljarðar.

Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri fyrirtækisins sem birt var í gær. Á sama tíma í fyrra var tapið um 7,7 milljónir dollara, eða um milljarður. Rekstrarhagnaður Síldarvinnslunnar á fyrsta ársfjórðungi eykst um rúma 3,3 milljarða króna sem skýrist fyrst og fremst af loðnuvertíð. 

Í árshlutareikningnum kemur jafnframt fram að ófærður söluhagnaður af SVN-eignarfélagi ehf., sem afhent var hluthöfum, verður færður inn á öðrum ársfjórðungi. Það eru tæpir þrír milljarðar miðað við núverandi gengi.

Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar fór fram í maí og seldust þá bréf í fyrirtækinu fyrir nærri 30 milljarða. Alls skráðu sig 6.500 fjárfestar og einstaklingar fyrir áskrift að hlutabréfum að andvirði um 60 milljarða króna. Það var því ríflega tvöfalt meiri eftirspurn eftir hlutabréfunum en endanleg sala þeirra.

Samherji er stærsti hluthafinn í Síldarvinnslunni með 32,6% eignarhlutfall.