Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Dánartíðni vegna COVID-19 hvergi hærri en í Perú

epa08939689 Health workers are treating new covid-19 patients within the Intensive Care Unit of the Alberto Sabogal Hospital, in Callao, Peru, 15 January 2021. Authorities of the health center say that 'they are collapsed' and that they do not have more ICU beds to care for new patients, due to an increase in cases of coronavirus infections that has been called by the Peruvian health minister Pilar Mazzetti as a second wave that it can overwhelm Peru.  EPA-EFE/Luis Angel Gonzalez
Gjörgæsludeild á Alberto Sabogal-sjúkrahúsinu í Callao í Perú. Mynd: EPA-EFE - EFE
Heilbrigðisyfirvöld í Perú gáfu í dag út endurskoðaða áætlun um fjölda dauðsfalla sem rekja má til COVID-19 þar í landi. Samkvæmt henni hafa ríflega tvöfalt fleiri dáið úr sjúkdómnum en áður var talið, eða 180.764 í stað 69.342. Því er dánartíðni vegna heimsfaraldurs kórónaveirunnar hvergi hærri en í Perú, þar sem 5.484 af hverjum milljón íbúum hafa dáið úr COVID-19 samkvæmt þessum nýju tölum.

Violeta Bermudez, forsætisráðherra, segir leiðréttinguna gerða að ráði sérfræðingahóps sem samanstendur af læknum og öðrum sérfræðingum á sviði heilbrigðismála í Perú og hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnununinni.

Um 33 milljónir manna búa í Perú, sem var í 13. sæti á lista yfir hæstu COVID-19 dánartíðnina fram að þessari breytingu, með 2.013 dauðsföll á hverja milljón íbúa. Nú er Ungverjaland, sem var í fyrsta sæti, hins vegar komið langt niður fyrir Perú á þessum dapurlega lista, með 3.077 dauðsföll á milljón íbúa í öðru sætinu.

Breytt aðferðafræði skýrir fjölgunina

Ekki er víst að Perú verði lengi efst á þessum lista ef fleiri lönd fara að dæmi þarlendra yfirvalda og nota sömu aðferðafræði og sérfræðingahópurinn þar. Í skýrslu hópsins segir að viðtekin aðferðafræði í Perú - sem tíðkast mun víðar í heiminum - hafi ekki gefið rétta mynd af áhrifum heimsfaraldursins.

Samkvæmt henni var COVID-19 því aðeins skráð dánarorsök, hafi hin látnu áður greinst með sjúkdóminn. Þar sem hvort tveggja skimunum og krufningum hafi verið mjög ábótavant sé ljóst að mikið vanti upp á að öll COVID-tengd dauðsföll hafi verið skráð sem slík.

Því sé nú horft til fleiri þátta og „líkleg tilfelli“ þar sem hin látnu höfðu „faraldursfræðileg tengsl við staðfest tilfelli“ talin með.  Jafnframt eru þau dauðsföll höfð inni í COVID-19 tölfræðinni, þar sem hin látnu höfðu sýnt óbrigðul einkenni farsóttarinnar, þótt formleg greining hafi ekki legið fyrir.

Önnur bylgja farsóttarinnar hefur geisað af miklum þunga í Perú síðustu vikur og mánuði og mikið álag á heilbrigðiskerfinu. Auk manneklu og ofkeyrslu starfsfólks hefur það einkum verið skortur á súrefnisbirgðum, sem hefur torveldað meðferð sjúklinga.

Þá hafa fjölmennar kosningasamkomur í aðdraganda forsetakosninga ekki orðið til þess að fækka smitum í landinu síðustu vikurnar.