Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Dæmdur til að borga fyrrverandi manni konu sinnar bætur

01.06.2021 - 06:13
epa08033911 Former German chancellor Gerhard Schroeder (R) and his wife Kim So-yeon (L) dance at the Federal Press Ball (Bundespresseball) in Berlin, Germany, 29 November 2019. The event takes place for the 68th time.  EPA-EFE/OMER MESSINGER
Gerhard Schröder og kona hans, Soyeon Schröder-Kim, glöð á góðri stundu.  Mynd: EPA
Gerhard Schröder, fyrrverandi Þýskalandskanslari var í liðinni viku dæmdur til að greiða fyrrverandi eiginmanni núverandi konu sinnar skaðabætur fyrir að hafa spillt hjónabandi hans. Eiginmaðurinn fyrrverandi höfðaði mál á þeim forsendum að það væri Schröder að kenna að hjónaband hans fór í hundana. Félagsdómstóll í Seúl komst að sömu niðurstöðu og dæmdi Schröder til að greiða fyrrverandi eiginmanni Soyeon Schröder-Kim ríflega 20 milljón won, jafnvirði 3,3 milljóna króna, í skaðabætur.

Korean Times greinir frá og vísar í frétt Yonhap-fréttastofunnar. Samkvæmt henni féll dómur í málinu á fimmtudaginn var.

Segir Schröder hafa kokkálað sig og konuna svikið samning

Kærandinn hélt því fram að Schröder hefði gerst hjónadjöfull þegar hann tók upp ástarsamband við eiginkonu hans á meðan þau voru enn gift. Þar að auki hafi samkomulag um skilnað þeirra Soyeon Kim haustið 2017 meðal annars hvílt á þeirri forsendu, að hún sliti sambandinu við Schröder. Það hafi hún ekki gert heldur þvert á móti gifst honum í maí 2018. Eiginmaðurinn fyrrverandi höfðaði málið það sama ár og fór þá fram á 100 milljón won, eða 11 milljónir króna, í skaðabætur.

Soyeon Schröder-Kim sagði dómstólnum aðra sögu en eiginmaðurinn fyrrverandi. Alvarlegir brestir hefðu verið komnir í hjónabandið áður en hún kynntist Schröder, sem ætti enga sök á skilnaðinum. Dómstóllinn úrskurðaði engu að síður eiginmanninum fyrrverandi í vil.

Framhjáhald var glæpur til 2015

Ástarsambönd utan hjónabands voru refsiverð í Suður Kóreu allt til ársins 2015 og gat framhjáhald jafnvel kostað fangelsisvist. Og þótt framhjáhald varði ekki lengur við hegningarlög þar eystra, þá er enn hægt að draga fólk fyrir félagsdóm og krefjast bóta ef upp kemst, eins og þetta dæmi sannar.

Soyeon Schröder-Kim er fimmta eiginkona Gerhards Schröders, sem var kanslari Þýskalands frá 1998 til 2005.
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV