Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Alþingismenn skulda Samherja engar skýringar“

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Þingmenn stjórnarandstöðunnar gerðu málefni Samherja að umtalsefni í dag, bæði bréf fyrirtækisins til mennta- og menningarmálaráðherra og tengsl sjávarútvegsráðherra við fyrirtækið.

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, furðaði sig á bréfi lögmanns Samherja á Alþingi í dag, þar sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra var beðin um að útskýra orð sem hún lét falla um fyrirtækið á Alþingi í apríl.

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Samherja, sendi Lilju bréf í lok apríl og bað hana að útskýra betur þau orð sín á Alþingi að hún teldi Samherja hafa gengið of langt. 
 
„Orðalag sem forsvarsmenn Samherja að hafa sjálfir notað um sína framgöngu í afsökunarbeiðni sem þeir sendu út. Það verður að segjast eins og er að það er ákaflega sérkennilegt samskiptaform að standa í bréfaskiptum af þessu tagi og lýsir hugsunarhætti manna sem telja sig ekki ríki í ríkinu heldur ríki yfir ríkinu,“ sagði Guðmundur Andri, og taldi rétt að minna á hvert þingmenn sækja umboð sitt.

„Alþingismenn heyra ekki undir Samherja. Alþingismenn sækja ekki til Samherja umboð sitt til starfa hér, heldur til kjósenda. Til almennings í landinu. Alþingismenn skulda Samherja engar skýringar á ummælum sínum sem falla í ræðustól hér og lúta að framgöngu og ummælum sem þegar liggja fyrir,“ sagði hann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett
Helgi Hrafn Gunnarsson og Kristján Þór Júliússon.

Segir ráðherra eiga að hafa vit á að víkja

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, nefndi tengsl Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra við Samherja.

„Hæstvirtur sjávarútvegsráðherra hefur með réttu sagst vera vanhæfur í málefnum Samherja, sem er gott og gilt. Vandinn er þessi: Framganga Samherja krefst þess að við séum með sjávarútvegsráðherra sem getur tekið á sjávarútvegsmálum án þess að hlutir eins og vinahagsmunir þvælist fyrir,“ sagði Helgi Hrafn.

Hann sagðist með því ekki vera að ásaka ráðherra um eitt né neitt, heldur velti fyrir sér umræðunni um vantraust í íslensku samfélagi.

„Hæstvirtur ráðherra ætti ekki að þurfa að heyra neinar skammir héðan úr pontu. Hann ætti að hafa vit á því sjálfur, að í það minnsta skipta um embætti eða fara úr því tímabundið. Ekki vegna þess að hann gerir eitthvað rangt, ekki vegna þess að hann eigi að vera spilltur, heldur vegna þess að hann er bersýnilega vanhæfur og hann veit það. Við vitum það og við sjáum það. Frumkvæðið ætti að koma frá hæstvirtum ráðherra sjálfum,“ sagði hann.