Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Vél Ryanair nauðlent í Berlín vegna sprengjuhótunar

31.05.2021 - 03:42
epa07747010 (FILE) - A Ryanair Boeing 737-8AS lands at Riga International Airport, Latvia 15 March 2019, reissued 29 July 2019. Media reports state on 29 July 2019 that Ryanair saw its pre-tax profits fall by 24 percent in the first quarter of 2019, and said that its pre-tax profit for the three month period though to June 2019 came in at 262.3 million euros against 345.4 million euros 12 months ago.  EPA-EFE/TOMS KALNINS
 Mynd: EPA - EPA-EFE
Farþegaþotu Ryanair, sem var á leið frá Dyflinni til Kraká í Póllandi, var lent í Berlín um átta leytið í gærkvöld. Þýskir fjölmiðlar greina frá því að sprengjuhótun hafi leitt til þess að flugstjórinn lýsti yfir neyðarástandi um borð og fór fram á tafarlaust lendingarleyfi, sem hann fékk. Gekk lendingin snurðulaust fyrir sig. Um 160 voru um borð í Boeing 737-vélinni, sem var ekið á öryggissvæði vallarins og rýmd þar.

Samkvæmt þýska blaðinu Bild voru lögregla og aðrir viðbragðsaðilar með mikinn viðbúnað á flugvellinum. Farið var með sprengjuleitarhunda inn í vélina og þeir látnir hnusa af farangri allra farþega líka.

Önnur sprengjuhótunin á skömmum tíma

Aðeins er rúm vika síðan vél Ryanair, sem var á leið frá Grikklandi til Litháen, var knúin til lendingar í Minsk vegna sprengjuhótunar. Gengið hefur verið út frá því á Vesturlöndum að sú hótun hafi verið runnin undan rifjum leyniþjónustu og stjórnvalda í Hvíta Rússlandi.

Engin sprengja fannst um borð í þeirri vél, en þar var þekktur og áhrifamikill gagnrýnandi Alexanders Lúkasjenkós, forseta Hvíta Rússlands, og stjórnar hans. Var hann umsvifalaust handtekinn þegar vélin lenti í Minsk, ásamt rússneskri unnustu sinni. Þau eru bæði enn í haldi.