Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Steinbrück segir málið pólitískt hneyksli

31.05.2021 - 10:54
epa08148140 German politician Peer Steinbrück attends the memorial service for the deceased late State Premier Manfred Stolpe in Potsdam, Germany, 21 January 2020. Stolpe who died aged 83 on 29 December 2019 was a state premier of Brandenburg and later transport minister in the German government.  EPA-EFE/ANDREAS GORA / POOL
 Mynd: EPA
Peer Steinbrück, sem var kanslaraefni Sósíaldemókrata í Þýskalandi árið 2013, segir það vera pólitískt hneyskli að dönsk yfirvöld hafi tekið þátt í njósnum á sínum samstarfsþjóðum. Þetta sýni að „þeir eru frekar í því að gera hluti á eigin vegum“.“

Fréttamenn Danska ríkisútvarpsins, DR, komust að því með samtölum við fjölda ónafngreindra en traustra heimildarmanna að Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, njósnaði um árabil um háttsetta stjórnmála- og embættismenn, stofnanir og fyrirtæki í Evrópu í gegnum danska fjarskiptanetið með vitund og vilja leyniþjónustu danska hersins. Njósnirnar komu fyrst fram í dagsljósið árið 2013 en það er aðeins núna sem blaðamenn hafa fengið aðgang að upplýsingum um samstarf leynisþjónustu danska hersins við NSA. 

Njósnað var um kanslara Þýskalands og forseta en einnig um Peer Steinbrück, sem þá var kanslaraefni Sósíaldemókrata. 

Deutsche Welle greinir frá því að heimildamenn hafi komið upplýsingum til blaðamannateymis sem danska, sænska og norska ríkisútvarpið áttu fulltrúa í auk blaðamanna Le Monde í Frakklandi, Süddeutsche Zeitung í Þýskalandi og þýsku fjölmiðlanna NDR og WDR. 

Hvorki Frank-Walter Steinmeier, forseti Þýskalands og þáverandi utanríkisráðherra, né Angela Merkel kanslari höfðu vitneskju um njósnir danskra fulltrúa, segir í umfjöllun Deutsche Welle. Dönsk stjórnvöld hafi vitað af þátttöku dönsku leynisþjónustunnar í síðasta lagi árið 2015 og var yfirstjórn hennar gert að segja af sér í fyrra.   

„Ríkisstjórnin hefur tekið málið til athugunar og er í sambandi við allar viðkomandi þjóðir og alþjóðastofnanir til að skýra málið,“ er haft eftir talsmanni þýsku stjórnarinnar á vef sænska ríkissjónvarpsins

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV