Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ráðherra vissi ekki af fyrirspurnum um ferðir Helga

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Utanríkisráðherra segist ekki hafa vitað af því að starfsmenn á vegum Samherja hefðu leitað eftir upplýsingum úr utanríkisráðuneytinu um ferðir Helga Seljan, fréttamanns RÚV, vegna umfjöllunar Kveiks um Samherja.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Guðlaug Þór Þórðarson í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag út í fréttaflutning Kjarnans af því, að hin svokallaða skæruliðadeild Samherja hafi leitað upplýsinga hjá Martin Eyjólfssyni, ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins og fyrrverandi sendiherra í Þýskalandi, um utanlandsferðir Helga.

„Hvað segir hæstvirtur ráðherra við slíkum njósnaleiðangri stórfyrirtækja gagnvart íslenskum blaðamönnum?“ spurði Þórhildur Sunna.

Guðlaugur Þór sagði að engar reglur væri til um hvernig koma ætti slíkum skilaboðum áleiðis í ráðuneytinu, og að hann hafi ekki vitað af málinu fyrr en Martin lét hann vita af fyrirspurn Kjarnans um málið.

„Ég held hins vegar að aðalatriðið sé þetta, að það er mjög mikilvægt að íslenskir blaðamenn fái að sinna sínum störfum og sínu aðhaldi og við getum kallað eftirliti með stjórnvöldum og öðrum með sem frjálsustum hætti og það er nokkuð sem ég styð, hef stutt og mun styðja áfram,“ sagði Guðlaugur Þór.