Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Óvissu og hættustigi vegna hættu á gróðureldum aflétt

31.05.2021 - 19:16
Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Einarsson - RÚV
Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórana á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestri og eystri, hefur ákveðið að aflétta bæði hættu- og óvissustigi vegna hættu á gróðureldum á svæðinu.

Nokkur úrkoma hefur fallið seinustu daga og hefur sú úrkoma verið nægileg til að aflétta bæði óvissu- og hættustigi á landinu. Almannavarnir hvetja almenning þó til að fara áfram varlega með opinn eld á gróðursælum stöðum.

Óvissustigi vegna gróðurelda var fyrst lýst yfir þann 6. maí í kjölfar gróðurelda í Heiðmörk. Þar brunnu rúmlega 60 hektarar lands. Síðan þá hafa þónokkrir gróðureldar kviknað vítt og breitt um landið og þegar verst lét var óvissu eða hættustig í gildi á stórum hluta landsins, að undanskildu Austurlandi, Vestur-Skaftafellssýslu og Vestmannaeyjum. 

Enn er þó hættustig á landinu vegna COVID-19 og eldgossins á Reykjanesskaga og þá er enn í gildi óvissustig vegna skriðufalla á Seyðisfirði.