Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

KFC, Dominos, N1 og Olís rökuðu inn með ferðagjöfinni

31.05.2021 - 12:15
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels - Pixabay
Bensínstöðvarnar Olís og N1, og skyndibitakeðjurnar KFC og Dominos Pizza, fengu samtals tæpar 120 milljónir króna frá ríkinu í formi ferðagjafar Íslendinga. Um 900 milljónum hefur verið varið með gjöfinni, en um 30 þúsund manns hafa ekki sótt hana. Flughermirinn Fly Over Iceland situr þó á toppnum, með 48 milljónir króna í kassanum vegna ferðagjafarinnar.

Rennur út í kvöld en ný á morgun

Ein af fjölmörgum aðgerðum stjórnvalda í faraldrinum, Viðspyrnu fyrir Ísland, er ferðagjöfin. Það er rafrænn styrkur upp á fimm þúsund krónur sem á að hvetja fólk til að ferðast innanlands og styrkja íslensk fyrirtæki í ferðaþjónustu. Íslendingar hafa nú notað alls um 900 milljónir króna í formi ferðagjafar stjórnvalda. Um 30 þúsund manns eiga eftir að nota peninginn, en frestur til þess rennur út í kvöld. Olís og N1 fengu saman 70 milljónir, Fly Over Iceland tæpar 50 og stærstu skyndibitakeðjurnar samtals 47 milljónir. Ný ferðagjöf verður aðgengileg á morgun. 

Ferðagjöfin varð aðgengileg öllum fullorðnum Íslendingum síðasta vor og rennur gildistíminn út á miðnætti í kvöld. Samkvæmt mælaborði Ferðamálastofu hafa nú rúmlega 215 þúsund Íslend­ing­ar hlaðið ferðagjöfinni sinni niður en ríflega 31 þúsund eiga hana enn inni. 185 þúsund manns hafa notað ávísunina á einn eða annan hátt, sem gera um 900 milljónir króna úr ríkiskassanum.

Fly Over Iceland trónir á toppnum

Flughermirinn á Granda, Fly over iceland, átti vinninginn en þangað komu tæpar 50 milljónir í formi ferðagjafarinnar. Bensínstöðin og sjoppan Olís, Olíu­versl­un Íslands, er í öðru sæti með 35 millj­ón­ir, og svo eru það þjón­ustu­stöðvar N1, með 34 milljónir. Skyndibitakeðjur fengu líka töluvert í kassann frá ríkinu, KFC fékk 26 milljónir og Dómínós pítsa 21 milljón. Ný ferðagjöf verður svo aðgengileg á miðnætti, um leið og sú gamla rennur út. Hún gildir út sumarið, til og með 31. ág­úst 2021, og er sama upphæð, 5.000 krón­ur.