Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hjálpa fyrirtækjum að fylgjast með kolefnissporinu

Mynd: Snjallræði / Snjallræði
Nokkur fyrirtæki hér á landi taka nú þátt í að þróa hugbúnað sem auðveldar þeim að reikna út og fylgjast með kolefnisspori sínu á hraðari og betri hátt en áður. Ólöf Lovísa Jóhannsdóttir hagfræðingur og Stefán Kári Sveinbjörnsson verkfræðingur fengu hugmyndina að hugbúnaðinum þegar þau voru við störf hjá Landsvirkjun. Þau hafa nú stofna fyrirtækið Greenfo í kringum hana.

Tekur oft langan tíma að safna gögnum 

Stefán var verkefnastjóri aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum hjá Landsvirkjun en Ólöf sérfræðingur á umhverfissviði og vann í loftslagsbókhaldi fyrirtækisins. 
 
Þau unnu við að safna gögnum til að reikna út kolefnisspor Landsvirkjunar og safna saman upplýsingum um Grænu skrefin sem þarf að skila reglulega til Umhverfisstofnunar. Þeim fannst að gagnasöfnunin þyrfti að ganga harðar og vera nákvæmari og áttuðu sig á að ekki var til hugbúnaður til að halda utan um gögnin þannig að hægt væri að vinna með þau.

Stefán segir að það geti farið mikill tími í gagnasöfnun, svo mikill að fólk fari ekki í það að draga úr losun.  Og ef er óvissa og vantar réttu upplýsingarnar þá hefur það áhrif á framkvæmdir. 
„Við erum bara þannig ef við vitum ekki hvað við erum að fara í þá bara oft frekar sleppum við því . Mörg fyrirtæki vilja vita hvað kostar þau að draga úr losun og hvaða verkefni á að fara í. Okkur fannst bara mikil þörf á því og geta veitt þetta tól.“

Nýtir upplýsingar úr fjárhagsbókhaldi fyrirtækja 

Þegar fyrirtæki þurfa að kaupa nýjar tölvur, rafbíl eða eldsneyti og svo framvegis þarf að fá upplýsingar um kolefnissporið. Nýi hugbúnaðurinn leyfir fyrirtækjunum að reikna allt sitt kolefnisspor fyrir virðiskeðjuna frá því þau kaupa inn vöru og þjónustu en einnig, það sem skiptir mestu máli, þegar þau eru búin að reikna kolefnisspor sitt þá geta þau farið í aðgerðir áður en þau kaupa hluti inn. Tekið það svo með í kostnaðinn og þannig dregið úr sínu kolefnisspori.“
 
Hugbúnaðurinn sem Ólöf og Stefán eru að þróa nýtir upplýsingar sem liggja fyrir í fjárhagsbókhaldi fyrirtækjanna til að reikna út kolefnissporið.  „Markmiðið er að fyrirtækið þurfi ekki að safna sjálft þessum gögnum heldur fá þau beint úr fjárhagsbókhaldinu og sjá þá hvar mesta losunin á sér stað og hvar tækifæri eru til þess að draga úr losun.“  

Fimm fyrirtæki taka þátt

Fimm fyrirtæki hafa ákveðið að taka þátt í þróun hugbúnaðarins. Stefán og Ólöf ákváðu að hafa þau ekki fleiri á meðan hugbúnaðurinn er á þróunarstigi. „Þetta eru allt frá því að vera stórir verktakar í byggingaframkvæmdum, eitt stærsta gluggaþvottar- og hreingerningafyrirtæki á landinu, veffyrirtæki og flutningsfyrirtækið Aha. Þetta eru allt fyrirtæki sem villja gera vel.“   

Með því að tengjast fjárhagsbókhaldi fyrirtækjanna er líka hægt að gera mat á birgjum og framleiðendum vöru og þjónustu. „Þannig að við náum svolítið að spyrja fyrirtækið: „Ert þú sem fyrirtæki að versla við aðilana sem eru að gera vel í loftslagsmálum?“  Og ef ekki þá færð þú tækifæri til að færa það fjármagn í þær vörur og þau fyrirtæki sem eru að gera vel.“
 
Stefán og Ólöf gera sér vonir um að hugbúnaðurinn þeirra hjálpi fyrirækjum svo þau nái betur tökum á því hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi.

„En við erum líka að horfa á að draga úr losun fyrir utan landamæri Íslands, að fyrirtæki sjái það að megnið af losuninni kemur ekki frá því sem á sér stað hér innanlands heldur í framleiðslu á vörunum erlendis.“

Halda áfram að vakta losunina

Með hugbúnaðinum öðlast fyrirtækin yfirsýn yfir eigin losun, ná að reikna út kolefnissporið og breyta hátterni sínu, fara í aðgerðir.

Stefán og Ólöf segja að það sé eitt að reikna út kolefnissporið og fara í aðgerðir og komast að því hver staða þess sé núna. Líka þurfi að huga að framtíðinni. „Með því að fara í þetta er hægt að vakta það [...].  Það skiptir bara svo miklu máli að vera alltaf að vakta það til að sjá hvort þú sért að ná því. Við teljum mikilvægt að hafa það með til þess að náist árangur.“

Sagt var frá verkefni Stefáns og Ólafar á lokadegi Snjallræðis - hraðals um samfélagslega nýsköpun sem haldinn var nýlega. 

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV