Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Fólk virðir ekki lokanir við gosstöðvarnar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrátt fyrir að búið sé að loka fyrir alla umferð upp á útsýnishólinn við gosstöðvarnar hefur sést til fólks fara yfir lokun ofan við vestari varnargarðinn í Meradölum. Lögreglan ætlar að bregðast við. Hraun er við það að renna úr Geldingadölum yfir haftið við hólinn niður í Meradali. Eina leiðin til að komast af hólmanum sem verður þá til er með þyrlu.

Í morgun hefur sést til vegfarenda sem virða lokanir lögreglu að vettugi. Hjálmar Hallgrímsson er lögreglumaður og forseti bæjarstjórnar í Grindavík.

„Þannig að við erum að fara að bregðast við. Við þurfum að fara þarna upp eftir og laga þetta.“

Er einhver leið að átta sig á hvenær hraunið fer þarna yfir haftið?

„Nei, það er nefnilega vandamálið, það getur gert það eftir korter, og það gæti gert það eftir sólarhring. það er vandamálið sem við vitum ekki. Þess vegna gripum við til þessara ráðstafana, að loka strax, því við vitum ekki hvenær þetta gerist en þetta mun gerast mjög fljótlega,“ 

Er það þannig að þið þurfið að vera með mannskap á staðnum til að snúa fólki við?

„Ef fólk er ekki að virða lokanir, sem það hefur gert ágætlega hingað til, þá þurfum við að gera ráðstafanir, annað hvort að vera á staðnum þar til þetta er yfirstaðið. Það er engin bráðahætta þarna, en fólk getur lokast inni og það er vandamál. Eina leiðin til að komast út er með þyrlu, og það er kostnaðarsamt.“ segir Hjálmar.