Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Danir hjálpuðu NSA að njósna um evrópska ráðamenn

31.05.2021 - 00:51
Mynd með færslu
Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur. Mynd: K. Navntoft - DR
Bandarísk leyniþjónustustofnun njósnaði um háttsetta stjórnmála- og embættismenn í Þýskalandi, Svíþjóð, Frakklandi og Noregi og naut til þess aðstoðar leyniþjónustu danska hersins. Þessu greinir danska ríkisútvarpið DR frá í dag og hefur eftir heimildarmanni að þetta mál geti hæglega orðið mesta njósnahneyksli Danmerkursögunnar.

Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, notaði danska fjarskiptakapla til að hlera símtöl þeirra og fylgjast með öllum rafrænum samskiptum sem fóru í gegnum síma þeirra, svo sem smáskilaboð og samskipti á spjallrásum samfélagsmiðla. Þetta gerði hún með fulltingi leyniþjónustu danska hersins, Forsvarets Efterretningstjeneste (FE). 

Meðal þeirra sem NSA njósnaði um með þessum hætti eru Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, þáverandi utanríkisráðherra Þýskalands (og núverandi forseti) og Peer Steinbruck, þáverandi leiðtogi þýsku stjórnarandstöðunnar. Á sama hátt var fylgst með ráðamönnum og stofnunum í Frakklandi, Noregi, Svíþjóð og fleiri ríkjum.

Leynilegri innanhússrannsókn stungið undir stól

Fréttaflutningur af þessu er samvinnuverkefni DR og fjölmiðla í Svíþjóð, Noregi, Þýskalandi og Frakklandi, sem byggð er á rannsóknarvinnu fréttamanna DR. Sú rannsóknarvinna fólst einkum í fjölda samtala við níu ónefnda heimildarmenn sem allir höfðu aðgang að leynilegum gögnum leyniþjónustu danska hersins FE.

Frásögn þeirra byggist svo aftur fyrst og fremst á háleynilegri innanhússrannsókn FE á njósnasamstarfi stofnunarinnar við NSA. Ráðist var í þá rannsókn í framhaldi af því, að bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden lak miklu magni upplýsinga um starfshætti NSA.

Upplýsinga, sem meðal annars vöktu grunsemdir innan FE um að NSA hefði nýtt sér aðgang FE að danska fjarskiptanetinu til að njósna um hvortveggja  Dani og nánustu bandamenn þeirra. Innanhússrannsóknin fékk heitið Operation Dunhammer og yfirstjórn FE fékk niðurstöður hennar afhentar árið 2015. Niðurstöðurnar voru afdráttarlausar:  Já, NSA hafði nýtt sér aðgang FE að danska fjarskiptanetinu til að stunda markvissar njósnir um fólk og fyrirtæki í Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Frakklandi, Þýskalandi og jafnvel víðar. Með vitund og vilja starfsmanna FE.

Yfirstjórnin gerði þó lítið með þá afdráttarlausu niðurstöðu og var þá kyrrt um hríð. 

Uppljóstrari kom hlutunum á hreyfingu

Þremur árum síðar þótti hins vegar einum þeirra sem gerðu innanhússrannsóknina tímabært að niðurstöður hennar bærust fleirum en aðgerðalitlum yfirmönnum hans hjá FE.  Því kom hann skýrslunni um Operation Dunhammer til Eftirlitsnefndar með störfum leyniþjónustunnar.

Þá fyrst fóru hjólin að snúast. Eftirlitsnefndin hóf umfangsmikla rannsókn á starfsemi danskra leyniþjónustustofnana. Ekki síst á sörfum FE, út frá Dunhammer-skýrslunni og gögnunum sem hún byggðist á. Sú rannsókn leiddi svo til njósnahneykslisins mikla sem olli miklum titringi í dönskum stjórnmálum og samfélaginu öllu í ágúst í fyrra og varð til þess að hópur þáverandi og fyrrverandi yfirmanna í FE var látinn taka pokann sinn.

Sjá líka: Danska leyniþjónustan grunuð um ólöglegt eftirlit

Á þeim tíma var fókusinn einkum á ólöglegri upplýsingasöfnun leyniþjónustunnar um danska ríkisborgara, og það, að hún hafði leynt mikilvægum gögnum og vísvitandi veitt yfirvöldum rangar upplýsingar. Þá kom hins vegar ekkert fram um þá samvinnu FE og NSA varðandi njósnir um háttsetta pólitíkusa, embættismenn, stofnanir og fyrirtæki í nánum bandalagsríkjum Danmerkur, sem nú hefur verið flett ofan af. 

Varnarmálaráðherrar Noregs og Svíþjóðar óánægðir

Í umfjöllun DR kemur fram að Trine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, hafi verið upplýst um njósnirnar í ágúst í fyrra og fengið Dunhammer-skýrsluna í hendur við sama tækifæri. Þá upplýsti hún hins vegar vegar hvorki norska né sænska kollega sína um það sem þar kom fram. Hún upplýsti þá heldur ekki um innihald Dunhammer-skýrslunnar þegar hún ræddi við þá eftir að DR fjallaði um það í nóvember í fyrra, að NSA hefði að líkindum njósnað um bandamenn og vinaþjóðir Dana með aðstoð FE. 

Þeir Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, og Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, staðfesta þetta í samtali við DR. Þeir eru báðir óánægðir með hvort tveggja njósnirnar og það, að þeir skuli þurfa að frétta af þeim í fjölmiðlum en ekki vera upplýstir um þær af dönskum yfirvöldum.  

Ekki bannað að njósna um bandamenn - en heldur ekki til vinsælda fallið

Ekkert í dönskum lögum bannar að leyniþjónustustofnanir danska ríkisins leggi leyniþjónustustofnunum bandalagsríkja lið. Það er heldur ekkert í dönskum lögum sem bannar leyniþjónustustofnunum að njósna um bandalagsríki eða einstaklinga eða stofnanir í þeim. Slíkt þykir þó ekki til fyrirmyndar og þeim mun verra eftir því sem ríkin sem njósnað er um eru nánari bandamenn.

Enn sem komið er eru Merkel, Steinmeier og Steinbruck þau einu sem hafa verið nafngreind í tengslum við þetta mál. Nöfnunum gæti þó hæglega átt eftir að fjölga og DR hefur eftir ónafngreindum heimildamanni að þetta stefni í að verða mesta njósnahneyksli Danmerkursögunnar.