Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Væta sunnan- og vestanlands en þurrt að mestu nyrðra

30.05.2021 - 08:09
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Suðlægar áttir leika um landið í dag og áfram næstu daga. Vestanlands má búast við suðaustankalda og hvassviðri í 10 til 18 metrum á sekúndu og jafnvel að enn hvassara verði á Snæfellsnesi. Það eru varasamar aðstæður fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind.

Sunnan og suðaustanátt fylgir að venju væta sunnan- og vestanlands og fremur svalt veður.

Norðausturhluti landsins helst áfram þurr að mestu með sólarköflum og hlýindum á þeim slóðum, að því er fram kemur í í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Í dag rignir talsvert syðst á landinu, en áfram er hætta á gróðureldum í þurrkinum á Norður- og Austurlandi. Á gosstöðvunum dregur úr sunnanáttinni með morgninum og lægir kringum hádegi.

Við það aukast líkur á uppsöfnun gass nærri gosstöðvunum. Síðdegis snýst í vestan og suðvestan 5 til 10 metra á sekúndu og berst þá gasið til norðausturs.

Gasið gæti þá gert vart við sig á höfuðborgarsvæðinu að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV