Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trúi því að Samherji hafi séð að sér

30.05.2021 - 19:01
Mynd: RÚV/Árni Þór Theodórsson / RÚV/Árni Þór Theodórsson
Samherji baðst í dag afsökunar á að stjórnendur fyrirtækisins hafi gengið of langt í að verjast neikvæðri umfjöllun. Fyrirtækið segir umræðuna innan svokallaðrar skæruliðadeildar óheppilega.

Yfirlýsing Samherja er send út í kjölfar þess að Stundin og Kjarninn birtu samtöl hóps sem gekk undir nafninu Skæruliðadeild Samherja. Í hópnum voru bæði starfsmenn Samherja og ráðgjafar á þeirra vegum.

Samtölin varpa meðal annars ljósi á tilraunir hópsins til að hafa áhrif á formannskjör í Blaðamannafélagi Íslands og prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þær tilraunir mistókust og varð niðurstaða beggja kosninga að þeir sem skæruliðadeildin reyndi að vinna gegn fóru með sigur af hólmi.

Þá kom einnig fram að hópurinn safnaði upplýsingum um blaðamenn í þeim tilgangi að gera þá ótrúverðuga og jafnvel vanhæfa til að fjalla um Samherja. Ráðherrar og aðrir stjórnmálamenn hafa á síðustu dögum fordæmt aðferðir Samherja eftir uppljóstrunina.

Hafa rekið málið á YouTube

Skæruliðadeildin er aðeins hluti af skipulagðri herferð Samherja sem hófst eftir umfjöllun Kveiks um viðskipti Samherja í Namibíu.

Herferðin hefur meðal annars beinst að persónum þeirra fréttamanna sem unnu að umfjölluninni, meðal annars í gegnum sérstaka Youtube-rás sem sett var í loftið eftir umfjöllunina um Samherjaskjölin. Þar hefur fyrirtækið rekið mál sitt en ítrekað neitað að svara spurningum fjölmiðla um málið.

Þá hefur Helgi Seljan, fréttmaður Kveiks, upplýst að Jón Óttar Ólafsson, sem starfað hefur fyrir Samherja, hafi setið um hann á opinberum vettvangi og sent honum ógnandi skilaboð. Þáverandi forstjóri Samherja sór af sér framkomu Jóns Óttars í garð Helga.

Gangast við að hafa gengið of langt

Samherji sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem viðurkennt er að stjórnendur fyrirtækisins hafi gengið of langt.

Í yfirlýsingunni segir að í samtölum hinnar svokölluðu skæruliðadeilar hafi fólk verið að skiptast á skoðunum um hvernig best væri að bregðast við aðstæðum. Þetta hafi verið persónuleg samskipti sem ekki var gert ráð fyrir að yrðu opinber. Það breyti því hins vegar ekki að þau orð og sú umræða sem þar voru viðhöfð hafi verið óheppileg.

Enn fremur segir að stjórnendur hafi brugðist harkalega við neikvæðri umfjöllun um félagið og ljóst sé að of langt hafi verið gengið í þeim viðbrögðum. Samherji vilji biðjast afsökunar á þeirri framgöngu.

Vonast eftir eðlilegum samskiptum við fjölmiðla

Helgi Seljan segist vona að orðum Samherja fylgi efndir. „Ég hlýt að túlka þetta þannig að þetta sé einlæg afsökunarbeiðni og þýði þá að fyrirtækið ætli sér að breyta um kúrs og fari þannig að taka upp eðlileg samskipti við fjölmiðla. Þá á ég við að þeir svari hreint og undanbragðalaust og upplýsi um þessi atriði sem við erum búin að vera á höttunum eftir í eitt og hálft ár. Að því sögðu þá eru auðvitað hlutir sem hafa gerst á þessu einu og hálfa ári sem þetta slær ekkert strik yfir.“

Helgi segist ekki hafa fengið persónulega afsökunarbeiðni frá Samherja. Spurður að því hvort hann taki afsökunarbeiðnina til sín svarar hann: „Ekkert eitthvað prívat og persónulega en ég held að þessu sé hent svona út í kosmósið og ég vil trúa því að þetta sé gert vegna þess að menn hafa séð að sér og ætli sér að breyta um taktík.“

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, ræddi við fréttastofu í dag en vildi ekki veita viðtal að svo komnu máli.