Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stærsti ferðamannadagurinn í Leifstöð frá upphafi COVID

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Fimm daga dvöl á sóttkvíarhóteli við komuna til landsins frá skilgreindum hááhættusvæðum verður ekki lengur skylda á miðnætti. Sóttkvína má framvegis taka út í sumarbústað, heimahúsi eða á hótelum sem bjóða upp á slíkt. „Við sjáum það til dæmis bara í dag sem er einn stærsti dagurinn frá því að COVID byrjaði, hér eru að koma um 2000 ferðamenn til landsins,“ segir aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Á miðnætti fellur úr gildi reglugerð um að undantekningalaust verði fólk, sem hingað kemur frá löndum þar sem kórónuveirusmit eru útbreidd, að taka sóttkvína út í sérstökum sóttvarnarhúsum. Næsta hálfa mánuðinn hið minnsta stendur fólki þó til boða að dvelja ókeypis á sóttkvíarhóteli. Lögreglan á Suðurnesjum undirbýr sig undir breytinguna. Í síðustu viku var móttökuborðum fjölgað í Leifsstöð þar sem fólk sýnir strikamerki fyrir sýnatöku og fær glas fyrir sýnatökupinnann. Þá hafa verið settir upp gámar fyrir utan bygginguna þar sem sýnatakan sjálf fer fram. 

 

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV

„Við sjáum það til dæmis bara í dag sem er einn stærsti dagurinn frá því að COVID byrjaði, hér eru að koma yfir 2000 ferðamenn til landsins. Það er bara aukning í flugi. Við sjáum fram á það þegar líða fer á mánuðinn að það gætu verið að koma upp undir 5000 ferðamenn til landsins á hverjum degi ef allt gengur eftir,“ segir Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðvardeild Lögreglustjórans á Suðurnesjum. 

Er þetta einfalt mál fyrir lögregluna hér að framfylgja þessu?

„Nei, þetta er í sjálfu sér ekkert einfalt, þetta er búið að vera mjög flókið og síbreytilegt umhverfi sem að við höfum verið að starfa við hérna. En þessar breytingar núna um mánaðamótin létta á ákveðnum þáttum en það breytir því samt ekki að allir sem koma til landsins þurfa að sæta sýnatöku, þeir sem hafa verið bólusettir þurfa að fara í eina og þurfa að bíða eftir seinni niðurstöðu og eru þá frjálsir. En allir þeir sem framvísa PCR-vottorðum þeir fara í sýnatöku hér, fimm daga sóttkví og sýnatöku aftur að sóttkví liðinni,“ segir Arngrímur. 

Um mánaðamótin fellur líka úr gildi reglugerð um bann við nauðsynjalausum ferðalögum frá hááhættusvæðum. 

Sérstök eftirlitsdeild hefur verið stofnuð á vegum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra til að fylgja eftir þeim sem eiga að vera í sóttkví. „En vinnan hjá okkur verður í sjálfu sér sú sama. Við erum ennþá að skoða vottorð og tryggja að fólk hafi lögmætar ferðaheimildir til landsins,“ segir Arngrímur. 

Lögreglan skoðar hvort þau heimilisföng sem fólk gefur upp sem dvalarstað í sóttkví. Þeir sem koma með vottorð um bólusetningu eða fyrri sýkingu þurfa aðeins að fara í eina sýnatöku við komuna til landsins. 

„Þeir sem eru bólusettir, yfirleitt má búast við að þeir fái niðurstöðu sama dag og jafnvel nokkrum klukkutímum seinna. Þeir geta tekið sinn bílaleigubíl og tekið einhvern hring. Menn eru jafnvel farnir að taka húsbíla eða þá að þeir fara á sitt hótel og bíða niðurstöðu sýnatökunnar,“ segir Arngrímur. 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV