Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Slettuvirkni“ í gosinu

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot úr vefmyndavél 30. m - RÚV
Framleiðnin í eldgosinu í Geldingadölum er söm en virknin er að breytast. Eldfjallafræðingur segir gíginn hafa tekið upp einhvers konar slettuvirkni. Eins og staðan er núna á hraunið langt í land með að fylla Nátthaga en nái hraunið að bæta flutningskerfið með einangruðum hraunrásum gæti það verið fljótara að fylla Nátthaga.

Eflaust er margt eldgosaáhugafólk komið með hálfgerð fráhvarfseinkenni því vefmyndavélarnar frá eldgosinu í Geldingadölum sýna bara þoku og rigningardropa sem renna niður linsuna. Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur, fylgist vel með og rýnir í gang gossins þegar skyggni leyfir. Hann segir virknina hafa breyst töluvert undanfarinn sólarhring, gígurinn byggist upp og kvikan liggur hærra. 

Það virðist hafa þau áhrif að við fáum ekki kvikustrókana lengur heldur slettur í ýmsar áttir. Þetta er einhvers konar slettuvirkni þannig að kvikan fer ekki beint upp í loftið heldur flæðir niður hlíðarnar á gígunum og eins bakkana á hraunánni þar sem hún er að fara út úr gígnum. 

Gosið viðheldur ástandinu því hver gusa byggir gígveggina meira upp og eins bakkana á hraunánni.

Hraunið kólnar hratt og storknar í opnum rásum

Þetta er orðið stórt miðlunarlón og úr því rennur hraunið niður í Meradali, mikið í Geldingadali og svo í Syðri-Meradali. Úr Syðri-Meradölum sem hafa verið kallaðir nafnlausi dalurinn flæðir það niður í Nátthaga í opnum glóandi rásum. Við þær aðstæður er hitatapið mjög mikið. Fyrir hvern kílómetra sem hraunið rennur tapar það 100-300 gráðu hita og kemst því ekki langt áður en það stífnar upp. Af þessum sökum hefur framgangur hraunsins í Nátthaga verið hægur en Þorvaldur segir að með því að sameina opnu rásirnar í eina eða tvær lokaðar rásir færi hitatapið undir gráðu á kílómetra. Ef það gerðist færi hraunið tiltölulega hratt í gegnum Nátthaga. 

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV