Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Guðrún og Njáll leiða D-lista í S- og NA-kjördæmi

Mynd með færslu
 Mynd:
Guðrún Hafsteinsdóttir markaðsstjóri fékk flest atkvæði í fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og Njáll Trausti Friðbertsson, alþingismaður, bar sigur úr býtum í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi.

Guðrún vann öruggan sigur í Suðurkjördæmi

Guðrún fékk 2.183  atkvæði í fyrsta sæti listans, en Vilhjálmur Árnason þingmaður 2.651 atkvæði í fyrsta og annað sæti. Þau Guðrún og Viljhálmur kepptust um leiðtogasætið í kjördæminu eftir að Páll Magnússon ákvað að hætta þingmennsku.

Ásmundur Friðriksson þingmaður, sem skipaði annað sætið í síðustu kosningum, varð þriðji með 2.278 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti. Björgvin Jóhannesson fjármálastjóri varð fjórði og Ingveldur Anna Sigurðardóttir laganemi vermir fimmta sætið. 

Alls greiddu 4.647 atkvæði í prófkjörinu. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þrjá þingmenn í Suðurkjördæmi í síðustu þingkosningum

Njáll Trausti leiðir listann í Norðausturkjördæmi

Í Norðausturkjördæmi er talningu lokið. Þar greiddu 1.570 manns atkvæði og voru 1.499 þeirra gild. Njáll Trausti, sem bauð sig fram í fyrsta sæti eftir að Kristján Þór Júlíusson þingmaður og ráðherra lýsti því yfir að hann hygðist hætta á þingi, fékk 816 atkvæði í 1. sætið og mun því leiða listann í haust.

Í öðru sæti varð Berglind Ósk Guðmundsdóttir lögfræðingur og varabæjarfulltrúi á Akureyri með 708 atkvæði í 1. - 2. sæti og Gauti Jóhannesson, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, landaði þriðja sætinu með 780 atkvæði í 1. - 3. sæti.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður byggðaráðs Múlaþings lenti í fjórða sæti og Ragnar Sigurðsson framkvæmdastjóri og bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð því fimmta.

Sjálfstæðismenn eiga tvo af tíu fulltrúum Norðausturkjördæmis á Alþingi nú. 

Fréttin var uppfærð þegar lokatölur lágu fyrir í Suðurkjördæmi.