Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Boða framkvæmdir og gjaldtöku við Hveri í Mývatnssveit

30.05.2021 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Framkvæmdir fyrir tæpar 200 milljónir króna eru áformaðar við hverasvæðið austan Námafjalls í Mývatnssveit. Félagið Sannir landvættir hyggst endurnýja þar bílastæði, gönguleiðir og útsýnispalla og hefja þar gjaldtöku í kjölfarið.

Hverir í Mývatnssveit eru eitt fjölsóttasta ferðamannasvæði landsins. Miklar deilur risu þegar hluti landeigenda Reykjahlíðar hóf þar gjaldtöku sumarið 2014 í því skyni að afla fjár til uppbyggingar á svæðinu. Gjaldtakan var harðlega gagnrýnd og á endanum stöðvuð með lögbanni. Nú hefur félagið Sannir landvættir boðað miklar framkvæmdir við Hveri og fengið til þess heimild skipulagsyfirvalda í Skútustaðahreppi.

Við höfum náð bara sameiginlegri lendingu með öllum landeigendum um að fara í innviðauppbyggingu á svæðinu og þarna erum við að fara í uppbyggingu á  bílastæðum, göngustígum, útsýnispöllum og annað þess háttar. 

Þórólfur Gunnarsson, rekstrarstjóri Sannra landvætta segir að félagið hafi samið við landeigendur um leigu á hverasvæðinu og beri ábyrgð á allri þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er. Sannir landvættir sjái  um að fjármagna uppbygginguna, klára öll skipulagsmál, hönnun, uppbyggingu og rekstur. Áætlanir þeirra geri ráð fyrir að leggja tæplega tvöhundruð milljónir í verkið. 

Framkvæmdir eiga að hefjast á næstunni og Þórólfur segir að byrjað verði á nýju bílastæði. Þegar það verði komið í gagnið hefjist þarna gjaldtaka. Hann gerir ráð fyrir að verkinu verði að mestu lokið í sumar.