Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bílveltur, bílþjófnaður og svefn úti á túnum

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Bíl var stolið fyrir utan verslun í Háteigshverfi í gær. Eigandinn hafði skroppið inn og skilið bílinn eftir í gangi. Rúmum tveimur tímum síðar fannst bíllinn og sá sem hafði tekið hann ófrjálsri hendi, sofandi undir stýri undir áhrifum áfengis og fíknefna. Hann var tekinn höndum og vistaður í fangaklefa.

Ökumaður sem lögregla stöðvaði í miðborginni framvísaði fölsuðu ökuskírteini og reyndist ökuréttindalaus. Hann var því kærður fyrir hvortveggja skjalafals og akstur án réttinda.

Lögregla þurfti tvisvar að aðstoða menn sem lágu sofandi úti á túnum, í hverfi 105 og í Neðri-Breiðholti, ölvaðir, blautir og hraktir í rigningunni.

Einn var handtekinn fyrir heimilisofbeldi, annar sem hafði verið til vandræða víðsvegar um miðborgina og þrír fyrir innbrot á sömu slóðum.

Nokkuð var um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna, hraðakstur og akstur án réttinda. Einn var tekinn ölvaður á 123 kílómetra hraða í úthverfi borgarinnar. 

 Tvær bílveltur urðu í umdæmi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu án þess að slys yrðu á fólki. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV