Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Banaslys í Ósá í Patreksfirði

30.05.2021 - 19:05
Mynd með færslu
 Mynd: Mohammad reza Fathian - Pexels
Banaslys varð í Ósá fyrir botni Patreksfjarðar í morgun. Maður á miðjum aldri, sem var á ferð ásamt fleira fólki, fór út í hyl undir fossinum Svuntufossi en þar reyndist mikill straumur. Maðurinn virðist hafa misst fótanna og fest í straumnum þar til nærstaddir náðu að koma honum til hjálpar. Maðurinn var meðvitundarlaus þegar honum var komið upp á yfirborðið.

Fólkið á staðnum kallaði eftir aðstoð og hóf þegar endurlífgunartilraunir. Þeim var haldið áfram allt þar til maðurinn hafði verið fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi í Reykjavík. Þar var hann úrskurðaður látinn.

Lögreglan á Vestfjörðum rannsakar tildrög slyssins. Fjölskyldu mannsins hefur verið tilkynnt um andlátið en ekki verður greint frá nafni hans að svo stöddu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV