Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Afleiðingar faraldurs, atvinna og jöfnuður til umræðu

Kórónuveirufaraldurinn var leiðtogum stjórnmálaflokkanna átta sem sæti eiga á þingi ofarlega í huga aðspurð um hverjar áherslurnar yrðu fyrir þingkosningarnar í haust. Leiðtogarnir voru gestir í Silfrinu í morgun og nefndu auk faraldursins, atvinnumál, loftslagsvána og sjálfvirknivæðingu til framtíðar.

Í þættinum var sleginn upptaktur fyrir komandi kosningar í haust og rætt um áherslur í stjórnmálunum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði vel hafa tekist til við að uppfylla markmið ríkisstjórnarinnar.

Stjórnarliðar töluðu um mikilvægi atvinnu

„Kosningarnar framundan munu að miklu leyti snúast um hvernig við sjáum Ísland eftir þetta áfall sem faraldurinn olli. Hvernig við sjáum atvnnulíf framtíðar, efnahagslíf framtíðar og hvernig við stöndum vörð um þann árangur sem hefur náðst í heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi og menntakerfi.“ 

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði markvissa peningastefnu hafa skapað grunn að skjóli fyrir heimili og fyrirtæki.

„Og spurningin er sú hvernig ætlum við að standa vörð um þennan stöðugleika fyrir heimili og fyrirtæki í framtíðinni. Auðvitað erum við með atvinnuleysi sem er að ógna stöðu heimilanna.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra kvaðst álíta að komandi kosningar snúist um að vernda líf, heilsu og efnahag. 

„Síðan mun það snúast um að skapa hér gott samfélag áfram. Það mun snúast um vinnu, vinnu og aftur vinnu. Fjárfesta í fólki og halda áfram að fjárfesta í innviðum.“ 

Jöfnuður, velferð og hagsmunagæsla 

Logi Einarsson formaður Samfylkingar talaði um loftslagsvána en líka um mikilvægi atvinnu og þá breytingu sem yfirstandandi tæknibylting veldur á samfélaginu. 

„Samfylkingin mun áfram leggja áherslu á að berjast gegn ójöfnuði í allri sinni birtingarmynd. En við munum auðvitað líka einbeita okkur að því að koma fólki til vinnu, tryggja velferð og skapa græna framtíð.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar sagði mikilvægt að byggja upp heilbrigðiskerfið og atvinnulíf. 

„Og síðast en ekki síst er það risamálið að við þurfum að stoppa þessa sérhagsmunagæslu sem er ofboðslega sjáanleg. Og það er kaldranalegt að á sama tíma og við erum að aflétta grímuskyldunni þá sjáum við grímulausa hagsmunagæslu og það þarf að stoppa.“ 

Það er mat Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur þingmanns Pírata að fjölga þurfi stoðum atvinnulífsins og jafna skiptingu gæða. 

„Ég held að næstu kosningar muni snúast um réttláta uppbyggingu eftir þennan heimsfaraldur og réttlát umskipti vegna loftslagsbreytinga.“ 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins fullyrti að ríkisstjórninni liði vel í skjóli COVID. Nú þurfi að huga að stóru málunum. 

„Ríkisstjórnin tók við einstaklega góðri stöðu sem hefur nýst vel við að takast á við efnahagslegar afleiðingar faraldursins. Sú staða varð til með alvöru stjórnmálum með innihaldi sem skilaði gríðarlegum árangri.“ 

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins sagði komandi kosningar snúast um jöfnuð og uppgjör milli þeirra sem allt eigi og hinna sem ekkert eigi.

„Ég trúi því að það verði ákveðið uppgjör í haust. Það er orðið ákall eftir meiri jöfnuði og réttlæti í samfélaginu. Næstu kosningar snúast um velferð, heilbrigðismál og jöfnuð og grundvallarmannréttindi, fæði, klæði og húsnæði fyrir alla.“