Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir taxta flugmanna Play langt undir öllum launum

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra  atvinnuflugmanna (FÍA) segir taxta flugmanna flugfélagsins Play vera langt undir öllum launum. Hann veltir fyrir sér hví Samtök atvinnulífsins standi á bak við slíka samninga.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag en Jón Þór kveðst hafa séð samninga flugfélagsins og Íslenska flugstéttafélagsins. Hann veltir einnig fyrir sér hverjir hafi gefið umboð til að semja, hverjir hafi samið og hverjir hafi kosið um samningana. 

Jón segir engan á Íslandi vinna fyrir þau 309 þúsund króna byrjendalaun sem sjá megi í launatöflu flugmanna Play. Það sé fyrir neðan allar hellur að að bjóða slík laun í óreglulegri vaktavinnu og Jón segir að kanna þurfa lögmæti samninganna.

Hann segir slík laun óboðleg fyrir fólk sem hafi dýrt nám að baki. „Þú gætir kannski séð svona taxta fyrir ófaglært fólk í dagvinnu eingöngu en þú gætir aldrei séð þetta fyrir ófaglært fólk til dæmis í vaktavinnu, hvað þá óreglulegri vaktavinnu.“

Það sé ekki hlutverk FÍA að kanna lögmæti samninganna og því vilji hann að opinberir eftirlitsaðilar geri það, enda sé það í þeirra verkahring. Gangi flugmenn Play í FÍA geti félagið boðist til að ganga til samninga við flugfélagið fyrir þá sem þess óski. 

Hann veltir fyrir sér aðkomu Samtaka atvinnulífsins. „Eru þau ekki hluti af þessum stóru Lífskjarasamningum á vinnumarkaðnum? Er alveg sama hvernig aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins haga sér?“