Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Krabbameinsfélagið lofar fjárframlagi með skilyrðum

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Krabbameinsfélag Íslands hyggst leggja Landspítala til myndarlega fjárhæð til byggingar nýrrar göngudeildar fyrir krabbameinssjúklinga. Gjöfin er bundin því skilyrði að stjórnvöld leggist á árar með félaginu og spítalanum við að leysa vanda deildarinnar.

Þetta var samþykkt á aðalfundi félagsins í morgun. Halla Þorvaldsdóttir formaður Krabbameinsfélagsins segir félagið tilbúið að leggja fram fjármagn verði það til þess að flýta því að leyst verði úr aðstöðuleysi krabbameinsdeildarinnar.

„Það er háð þeim skilyrðum að stjórnvöld leggist á árar með félaginu og spítalanum að bæta úr þessu aðstöðuleysi. Þetta er þjóðþrifamál, einn af hverjum þremur Íslendingum getur búist við að greinast með krabbamein og allir hinir eru aðstandendur. Þetta varðar okkur öll.“

Viðræður hafa staðið yfir um hríð

Viðræður hafa staðið yfir við stjórnvöld og stjórnendur sjúkrahússins um þessa hugmynd félagsins. Setja þurfi uppbyggingu deildarinnar í forgang svo hægt verði að taka hana í notkun á allra næstu árum.

„Félagið hefur verið í samtali við forsvarsfólk á Landsspítala í eitt og hálft ár og við höfum kynnt það fyrir fjármála- og heilbrigðisráðherra að félagið kunni að vera tilbúið að gera þetta. Það var það sem aðalfundur samþykkti fyrr í morgun.“

„Krabbameinsfélagið er tilbúið að veita allt að  450 milljónum til þessa verkefnis. Það er háð því hvort samkomulag næst um þetta, hvort að stjórnvöld eru tilbúin að bregðast við þeim alvarlega vanda sem aðstöðuleysi deildarinnar er.“

Halla segir von félagsins að myndarlegt fjárframlag geti orðið til þess að af uppbyggingu deildarinnar verði. Hún segir núverandi aðstöðu algerlega óviðunandi fyrir sjúklinga, aðstandendur og starfsfólk. Hún sé jafnframt alltof lítil og því þurfi að bregðast hratt við. 

Landspítalinn á hugmynd að lausn 

Ekki er gert ráð fyrir deildinni í nýjum meðferðarkjarna. Halla segir að Landspítalinn eigi hugmynd að lausn, það sé ekki Krabbameinsfélagsins að teikna upp lausn enda sé spítalinn best til þess fallinn. 

„Það er lausn sem hægt er að hrinda í framkvæmd á tiltölulega auðveldan hátt. Krabbameinsfélagið er tilbúið að leggja því lið með þessum myndarlega hætti. Það yrði bylting fyrir sjúklinga og starfsfólk.“ 

Halla segir nauðsynlegt að ganga hratt í verkið til að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur í meðferð sjúkdómanna og jafnvel til að ná enn betri árangri. Krabbameinstilvikum muni fjölga um 30% á næstu fimmtán árum þannig að álagið muni aukast á næstu árum.