Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Harðar sóttvarnarráðstafanir í Nuuk í kjölfar sex smita

Godthåbhallen í Nuuk að utan, kjörstaður í landsþingskosningum, grænlenski fáninn
 Mynd: Danmarks Radio - DR
Þrennt greindist með COVID-19 í Nuuk höfuðstað Grænlands eftir skimun í gær, föstudag, til viðbótar við þrjá sem greindust fyrr í vikunni. Um 80 hafi verið send í sóttkví eftir að þrír starfsmenn Munck byggingafyrirtækisins greindust með kórónuveirusmit. Í gær var gripið til harðra sóttvarnarráðstafana í bænum.

Frá þessu er greint á fréttavefjunum Sermitsiaq og KNR. Um 400 fóru í kórónuveirupróf í gær en Henrik L. Hansen landlæknir kveðst nokkuð viss um að veiran hafi ekki náð að dreifa sér.

Múte B. Egede, formaður landsstjórnar Grænlands, staðfesti það á blaðamannafundi síðdegis í dag. „Þær sóttvarnarráðstafanir sem ákveðnar voru í gær gilda hið minnsta fram á mánudag,“ sagði Egede á fundinum.

Landlæknir hvetur til skimunar

Landlæknir hvetur fólk eindregið til að fara í skimun. Yfirvöld brýndu fyrir hverjum og einum starfsmanni byggingafyrirtækisins að fara í skimun og fólk sem heimsótt hafði veitingastaðina Daddys, Hereford Beefstouw og Skyline.

Ekkert smit fannst í þeim hópi. Landlæknir segist feginn því kveðst bjartsýnn á stöðu mála, jafnvel þótt veiran hafi eitthvað náð að dreifa sér. „Hingað til takmarkast smitin við vinnubúðirnar hjá viðkomandi fyrirtæki,“ segir Hansen landlæknir. 

Útilokar ekki fleiri smit

Aðeins einn hinna smituðu er með alvarleg einkenni en þó ekki svo að þörf sé á sjúkrahúsinnlögn. Hansen segir enn möguleika á að einhver hafi dreift veirunni víðar og því vilji hann ekki útiloka að fleiri smit eigi eftir að koma upp.

Alls hafa 40 greinst með COVID-19 á Grænlandi, enginn hefur látist af völdum sjúkdómsins og um fimmtungur 56 þúsund íbúa landsins hefur fengið bólusetningu.

Þegar í næstu viku verður hert á bólusetningum íbúa Nuuk á aldrinum 50 til 64 ára. Yfirvöld fyriskipuðu í gær að íbúar höfuðstaðarins notuðu grímur í verslunum, í byggingum hins opinbera og í almenningsfarartækjum þar sem ekki er leyfilegt að taka fleiri farþega en geta setið.

Veitingastöðum var gert að loka og íþróttaviðburðir bannaðir hið minnsta fram á mánudag. Eins ákváðu yfirvöld að loka fyrir allar samgöngur til og frá Nuuk fram á mánudag.