Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Geta ekki hafnað vinnu vegna menntunar eða reynslu

29.05.2021 - 12:28
Mynd með færslu
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Fólk á atvinnuleysisskrá getur ekki hafnað starfi á grundvelli menntunar eða starfsreynslu án þess að það skerði rétt til atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun vill að fyrirtæki tilkynni um fólk sem neitar vinnu eða lætur ekki ná í sig. Tillit kann að vera tekið til félagslegra aðstæðna en ekki er hægt að bera fyrir sig menntun eða starfsreynslu.

Atvinnurekendur hafa kvartað undan því síðustu daga að erfitt geti reynst að fá fólk á atvinnuleysisskrá til starfa. Það hafi hafnað vinnu eða ekki látið ná í sig. 

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að lögin séu skýr. Fólk geti ekki hafnað starfstilboði án þess að missa bótarétt. Fyrst í tvo mánuði, síðan í þrjá mánuði og að lokum þar til það hefur unnið sér inn bótarétt á ný. 

Fólk getur ekki hafnað vinnu á þeim grundvelli að hún hæfi ekki menntun þess eða starfsreynslu. Þó er reynt að finna fólki störf við hæfi. Hafi fólk verið lengi í atvinnuleit án árangurs ræða ráðgjafar við fólk um að skoða fleiri starfsmöguleika.

„Við metum skýringar einstaklingsbundið,“ segir Unnur. „Auðvitað fær fólk alltaf tækifæri til að koma með skýringar á því ef það hafnar vinnu. Stundum eru þær gildar, eins og ef þetta er kannski vaktavinna og fólk er ekki með pössun og þarf kannski að mæta nánast á nóttunni og svoleiðis. Til dæmis slíkar aðstæður geta verið metnar gildar.“

Brugðist hefur verið við fréttum um að fólk á atvinnuleysisskrá hafni vinnu. „Við höfum heyrt þetta og það fór teymi til að fara gaumgæfilega ofan í öll þessi mál og höfum verið að hvetja atvinnurekendur til þess að láta vita í hvert skipti sem þetta gerist. Öðruvísi getum við ekki tekið á málinu nema við fáum upplýsingar um það að viðkomandi hafni starfi eða láti ekki ná í sig.“