Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fundu fjöldagröf 215 barna af frumbyggjaættum í Kanada

29.05.2021 - 12:23
Erlent · Kanada
Canadian Prime Minister and Liberal Party leader Justin Trudeau reacts as he makes a statement in regards to a photo coming to light of himself from 2001, wearing "brownface," during a scrum on his campaign plane in Halifax, Nova Scotia, Wednesday, Sept. 18, 2019. (Sean Kilpatrick/The Canadian Press via AP)
 Mynd: AP
Fjöldagröf 215 barna fannst á dögunum í Kanada í gömlum heimavistarskóla fyrir börn af frumbyggjaættum. Forsætisráðherra landsins segir fundinn sársaukafulla áminningu um skammarlega fortíð landsins.

Börnin voru nemendur í Kamloops Indian Residential skólanum í Bresku-Kólumbíu sem var einn nokkurra heimavistarskóla þar sem aðlaga átti börn af frumbyggjaættum að kanadísku samfélagi. Þar var þeim bannað að nota eigin tungumál og rækja eigin menningu og siði. Um fimm hundruð börn sóttu nám í skólanum á sjötta áratugnum en honum var lokað árið 1978.

Ekki liggur fyrir hvenær eða hvernig börnin létust en líkin fundust við eftirlit í byggingunni. Þau yngstu voru þriggja ára. Talið er að rúmlega 150 þúsund börnum hafi verið gert að fara í heimavistarskóla eins og Kamloops Indian Residential frá 1863 til 1998. Kanadísk stjórnvöld báðust afsökunar á skólunum árið 2008 og hófu formlega rannsókn á þeim. Í ljós kom að fjöldi barna sneri aldrei aftur til síns heima.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði á Twitter síðu sinni í morgun að líkfundurinn væri sársaukafull áminning um skammarlega fortíð landsins.