
Bikblæðingar í Norðurárdal og Skorradalsvegur lagaður
Vegblæðingar fylgja miklum hitasveiflum á skömmum tíma og verða oft í þeim klæðningum sem lagðar eru á stóran hluta íslenska vegakerfisins. Við lagningu slitlags er notuð lífolía til að mýkja bikið svo auðveldara sé að leggja það.
Að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar reynist veðurfar á Íslandi áskorun, bæði lágur hiti á sumrin þegar verið er að leggja bundið slitlag og tíðar sveiflur á milli frosts og þíðu á veturna.
Malbikað er frá Reykjavík að Borgarnesi til vesturs og til austurs að Þjórsárbrú á Suðurlandi. Eins er malbik á leiðum út frá Akureyri.
Skorradalsvegur lagfærður
Starfsmenn Vegagerðarinnar unnu í vikunni við lagfæringar á Skorradalsvegi frá Fitjum í Skorradal sem tengist Uxahryggjavegi. Það var gert að beiðni lögreglustjórans á Vesturlandi í þágu almannavarna enda litið á að bæta þyrfti veginn svo hann geti þjónað sem flóttaleið úr Skorradal.
Einkum er litið til hættunnar af gróðureldum í því samhengi. Skessuhorn hefur það eftir Valgeiri Ingólfssyni yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni í Borgarnesi og að tveggja milljóna aukafjárveiting hafi fengist til verksins.
Valgeir segir veginn enn aðeins færan vel búnum jeppum en þó öllu fljótfarnari eftir hann var heflaður og borið í hann.