Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Allir og Ash Walker elska sólskinið

Mynd: Dan Medhurst / Ash Walker

Allir og Ash Walker elska sólskinið

29.05.2021 - 14:18

Höfundar

Ash Walker hefur getið sér gott orð í danstónlistarsenu Lundúna með því að blanda saman sál, jazz, rhythma & blús, og latínusmellum. Tónlist hans er frábær ferðafélagi inn í sumarið, segir Davíð Roach Gunnarsson.

Davíð Roach Gunnarsson skrifar:

Nú þegar lífið er að skríða aftur í startholurnar með rísandi sól og tíðara grímuleysi er fólk loksins farið að komast á tónleika aftur þó í mýflugumynd sé. Nú í upphafi mánaðar voru til að mynda tónleikar í Mengi með breska tónlistarmanninum Ash Walker og söngvaranum Laville. 

Ég átti því miður ekki heimangengt en þeir kveiktu áhuga minn á Ash Walker, en í tónlist sinni bræðir hann saman organíska hipphopp-takta við djassað ambíentdöbb, veðraða sólskins-synþa, og stundum sálarríkan söng, tónlist sem hefur ratað aftur og aftur í mín eyru síðan, og ef sumarið verður jafn sólríkt og vorið lofar, verður hún líklega að fastagesti.

Ash Walker er Lundúna-búi, bassaleikari, tónlistarmaður, pródúsant og plötusnúður og hefur sem hið síðastnefnda starfað sem upphitari á tónleikum Ska-bandsins The Specials. Walker gaf út sína fyrstu sólóskífu, Augmented 7th, árið 2015 en á henni heyrir maður glöggt fjölbreyttan og exótískan smekk hans. Stefnurnar sem eru mest ráðandi eru hipp- og tripphopp, döbb, reggí, djass og raftónlist, en í opnunarlaginu Cote De Beouf má líka heyra arabíska skala og egypska stemmingu, eins konar þúsund og ein nótt af eftirpartíum.

Þegar upptökuverið varð að hljóðfæri

Í Bamboo Circus er reggíið sett í framsætið og Ash Walker nær í bergmálspedalana sína og stappar á þeim, auk þess að njóta aðstoðar söngvarans Segilola sem ljær laginu silkiklædd raddbönd sín. Líklega mætti segja að döbbið sé mest ríkjandi stefið í hljóðheimi Ash Walker fram að þessu, en það er undirgeiri reggísins sem þróaðist á Jamaíku upp úr 1970 með upptökustjórum og hljóðgaldramönnum á borð við Lee Scratch Perry, Scientist og King Tubby, þar sem reggílög voru endurmeðhöndluð og áherslan í hljóðblöndun lögð á ryþmaparið bassa og trommur, auk þess sem bergmálseffektum var beitt í ótæpilegu magni á það sem út af stóð. 

Döbbið er raunar stórmerkilegt fyrirbæri sem átti eftir að hafa ómæld áhrif sem bergmála til að mynda í póstpönki Public Image Limited, popptónlist Police og tripphoppi Massive Attack, en sérstaklega síaðist það inn í raftónlistina sem síðar kom, og mætti í raun segja að döbbið hafi verið fyrsta stefnan þar sem hljóðverstækni og effektar voru í aðalhlutverki, og upptökuverið sjálft helsta hljóðverið.

Fagnar ófullkomleikanum

Ash Walker hefur sjálfur sagt í viðtölum að hann sé á skjön við helstu hljómverkfræðinga nútímans og aðhyllist ekki tært og nákvæmt sánd, heldur sé hrifinn af snarki, brestum, mistökum og ófullkomleika, hlutum sem flestir fagmenn vilji hreinsa í burtu. Hann segist nota plötur King Tubbys sem viðmið í hljóðblöndun, hann hafi verið eins og skúlptúrlistamaður hljóðtíðna, en flauelsmjúka melódikkustemman Round The Twist gæti hæglega hafa komið úr smiðju átrúnaðargoðsins.

Önnur breiðskífa Ash Walkers hét enda Echo Chamber, sem bæði vísar í bergmálsbúbblur samfélagsmiðla þar sem allir prédika endalaust fyrir sammálakórunum sínum, en líka í helsta verkfæri og uppáhalds effektatæki döbbsins, ekkóið. Hún kom út ári síðar en sú fyrsta, 2016, og sveimar á eilítið kosmískari lendum, hefst á laginu Step Into my Spaceship þar sem kraftwerkuð vélmennarödd býður hlustendur velkomna. Á Echo Chamber vann Ash Walker líka í fyrsta skiptið með sálarsöngvaranum Laville í laginu Thunder, en sá átti eftir að spila stærri rullu á næstu breiðskífu, og kom með Walker til Íslands til að syngja með honum á tónleikunum í Mengi.

Þriðja og nýjasta breiðskífan kom út sumarið 2019 og nefnist Aquamarine. í tilkynningu frá útgáfufyrirtækinu Late Night Tales, kemur fram að hún fjalli um djúpköfun í undirmeðvitundinni og samruna sjávar, lita og hljóma, sem síkadelískt og sixtíslegt umslagið fangar afskaplega vel, en grafíkin minni meira en lítið á Wes Anderson-myndina Life Aquatic. Á Aquamarine vinnur Ash Walker með mikið af hljóðfæraleikurum og platan hljómar meira eins og afrakstur hljómsveitar en einyrkjastarfsemi í svefnherbergishljóðveri eins og þær sem á undan komu. Fyrri plöturnar tvær voru svo að mestu leyti án radda en hér syngur áðurnefndur Laville í næstum helmingi laganna.

Kosmísku djass og sólbrenndir synþar

Annar samverkamaður á plötunni er trompetleikarinn Yazz Ahmed sem hefur unnið með stjörnum eins og Nile Rodgers, Lee Scratch Perry og Radiohead, en hún er skráð meðhöfundur hins léttfjúsonaða og seventíslega Come With Us þar sem hún á melankólískt Miles-sóló á trompetinu, en lagið er eitt það sterkasta á plötunni. Það er eitthvað við tónlist Ash Walkers, og sérstaklega þriðju skífuna Aquamarine, sem ég tengi mikið við sumarstemmingu. Letilegt tempóið, ofbjörtu hátíðnirnar, kosmíski nýaldardjassinn og sólargeislasynþarnir í Brave New World minna mig til dæmis á unaðslegan óð víbrafónmeistarans Roys Ayers til sólarinnar, Everybody Loves The Sunshine, sem ég fæ aldrei leið á, ekki frekar en sólinni sjálfri. 

Á plötunni er víða að finna vegsummerki minnar uppáhalds sumartónlistar, sem ég tengi við áferð hljómsins og bjartar hljómborðstíðnir frekar en eiginlegan geira; Summer Madness með Kool and the Gang, Campfire Headphase með Boards of Canada, Simple Things með Zero 7, Reachin’ með Digable Planets, Unemployed in Summertime með Emilíönu Torrini, og Dots and Loops með Stereolab til að nefna nokkur dæmi. Svona tónlist sem ég hef sett í gettóblasterinn á bestu stundum sumarsins, þegar ég sparka í hakkísakk á Austurvelli, spila kubb í hljómskálagarðinum, mæti í grillveislu eftir maraþonlanga sundferð eða opna fyrsta bjórinn á hádegi í heitapottinum í sumarbústaðaferinni.

Tónlist Ash Walkers er melódísk, björt og bjóðandi, en hann vinnur nú að sinni fjórðu breiðskífu sem er væntanlega síðar á þessu ári. Þá hef ég það eftir áreiðanlegum heimildum að hann hyggist snúa aftur til Íslands von bráðar og þá halda tónleika með live-bandinu sínu Ash Walker Experience, þar sem hann sjálfur spilar á hljómborð og melódikku, en hefur með sér bassa-, trommu- og trompetleikara, auk bakraddasöngvara og grafíkmanns. En meðan við bíðum eftir því hvet ég lesendur til kynna sér tónlistina á Spotify, og þá sérstaklega nýjustu breiðskífuna Aquamarine, því hún er frábær ferðafélagi inn í sumarið, hvort sem er í almenningsgarðinum innanbæjar, bílagræjunum í roadtrippinu, eða heyrnartólunum á leiðinni að eldgosinu.