Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Votviðri dregur úr hættu á gróðureldum

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Útlit er fyrir að lægðir gangi yfir landið næstu daga og talsverðri rigningu er spáð á sunnanverðu landinu um helgina sem dregur úr hættu á gróðureldum. Búast má við hvössum vindi sem er varasamur fyrir farartæki sem taka á sig vind.

Óli Þór Árnason veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands staðfestir þetta í samtali við fréttastofu auk þess sem hann hvetur ferðalanga til varkárni. 

„Yfir helgina mun rigna þokkalega, það rignir sæmilega í nótt og töluvert annað kvöld. Á sunnudaginn verður mjög blautt á Suðausturlandi", segir Óli Þór og áréttar að við það dragi úr hættu á gróðureldum.

Töluverður munur sé á veðrinu milli landshluta, sínu hvassast og blautast verður á suðuvesturhorninu en bjart og ágætisveður fyrir norðan og austan.

Hlýtt verði á Norðurlandi en ekki eins á Austurlandi. „Nú erum við komin á það tímabil ársins þegar ferðalög verða algengur hluti af venjum landsmanna. Mikið er af fellihýsum, hjólhýsum og hestakerrum sem eru mjög viðkvæm fyrir vindi.“

Óli Þór segir vindstyrkinn um helgina geta valdið vandræðum einkum í kringum fjöll. Hann kveður suðvestanáttina sérstaklega erfiða viðureignar fyrir aftanívagna við Ingólfsfjall, Hafnarfjall, á Kjalarnesi og undir Eyjafjöllum.

Búast má við hviðum, allt að 30-35 metrum á sekúndu, undir Hafnarfjalli og á utanverðu Kjalarnesi síðdegis í dag og að ekki lægi fyrr en undir miðnætti, að því er fram kemur í hugleiðingu Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings á Veðurvaktinni.