Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Snör handtök bænda komu í veg fyrir gróðurelda

28.05.2021 - 17:41
Mynd með færslu
 Mynd: Davíð Rúnar Gunnarsson
Betur fór en á horfðist í Vatnsfirði á Vestfjörðum á sjötta tímanum þegar raflína sló niður í staur, sem stóð þá í ljósum logum og kveikti í mosagróðri í kring. Fyrir vestan er enn í gildi hættustig vegna hættu á gróðureldum. Lítið svæði í kringum staurinn brann.

„Það voru í raun bara vegfarendur og bændur í grennd sem urðu varir við þetta. Og náðu að slökkva strax í byrjun, þar sem annars hefði farið allt í kjarrið hjá okkur í mosann og gróðurinn í Vatnsfirði sem er svakalega þurr um þessar mundir,“ segir Davíð Rúnar Gunnarsson, slökkviliðsstjóri á Patreksfirði.

„Það hefur ekkert rignt enn þá, vonandi kemur rigning einhvern tíma um helgina. Það eru áfram ítrekanir frá öllum slökkviliðsstjórum að fólk fari rosalega varlega. Og sérstaklega með þessi einnota grill og annað sem getur valdið gríðarlegri hættu. Það fór rosalega vel núna, en það hefði getað farið mjög illa.“