Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Meira en 30 hektarar brunnir í eldunum á Reykjanesskaga

Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands - Náttúrufræðistofnun
Meira en þrjátíu hektarar lands hafa orðið gróðureldum að bráð í kringum eldsstöðvarnar við Fagradalsfjall. Náttúrufræðistofnun Íslands endurmat nýverið umfang eldanna, sem hafa vaxið töluvert. Hraun þekur nú meira en tvo ferkílómetra og eykst dag frá degi.

Eldgosið hefur nú staðið yfir í meira en tvo mánuði með tilheyrandi hraunflæði. Hraunið þekur nú meira en tvo ferkílómetra á svæðinu og stækkar ört dag frá degi. Gróðurelda við hraunið varð fyrst vart í byrjun maí og hefur Náttúrufræðistofnun Íslands mælt og metið eldana reglulega. Nú er talið að um 31 hektari hafi orðið eldum að bráð. Einn hektari þekur tíu þúsund fermetra, hundrað metra sinnum hundrað.

Brunninn hraungambri

10. maí var stærð brunasvæðisins áætluð um 25 hektarar og er það mestmegnis mosinn hraungambri sem hefur brunnið. Náttúrufræðistofnun segir á vef sínum að í hraungambranum vaxi fáeinar tegundir æðplantna. Gróðurinn við gosstöðvarnar var skoðaður gaumgæfilega um miðjan maí til að meta hvað væri að hverfa undir hraun annars vegar, og hins vegar að brenna. Þá var það land sem hafði farið undir hraun að meiri hluta lítt gróið, melar og moldir. Gróflega áætlað var um þriðjungur þess lands sem nú er þakið nýju hrauni vel gróin mosaþemba og lyngmóar.

Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot af Facebook - RÚV

340 tonn af gróðri orðið eldum að bráð

Nú hefur Náttúrufræðistofnun endurmetið umfang gróðureldanna og ljóst er að þurrkar maímánaðar hafa gert það að verkum að töluvert stærra svæði hefur brunnið síðan í byrjun maí, um níu hektarar til viðbótar. Gróflega áætlað höfðu um 340 tonn af gróðri brunnið í eldunum fyrir tíu dögum síðan. Eldarnir kvikna frá hraunjöðrum á grónu landi og út frá gjósku. Háu gosstrókarnir bera glóandi gjósku langt frá gígnum sem svíður mosann þar sem hún fellur til jarðar og vindur ýfir upp glóðina sem kraumar í mosanum. Úrkoma nær að slökkva eldana, en um leið og styttir upp virðast þeir kvikna að nýju. Náttúrufræðistofnun fylgist áfram með svæðinu og endurmetur reglulega útbreiðslu brunnins lands.