Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hefur talað við trillukarl hér og bónda þar

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segist ekki hafa átt í samskiptum við svokallaða skæruliðadeild á vegum Samherja. Hann segist þó hafa átt í samskiptum við Pál Steingrímsson, skipstjóra hjá Samherja.

Fjölmiðlar hafa undanfarið fjallað um að starfsmenn fyrirtækisins hafi haft uppi hugmyndir til að hafa áhrif á prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og formannskjör til Blaðamannafélags Íslands.

„Ég þekki ekki hvernig og hvort slíkt skipulag hafi verið í gangi. Það mega allir hafa skoðanir á prófkjörsmálum en ég stend ekki í slíku makki. Ég hef gefið það út að ég sé að hætta í pólitík og sé þarna fullt af góðum frambjóðendum.“ segir Kristján Þór.

Ekki að hætta vegna Samherjamálsins

Hann segir að skæruliðarnir verði að svara því sjálfir hvort og þá hvernig þeir hafi reynt að hafa afskipti af formannskjöri í Blaðamannafélagi Íslands. Blaðamenn eigi að hans mati að fá að ráða því sjálfir hvern þeir velja til forystu í stéttarfélagi. Hann neitar því að Samherjamálið sé ástæða þess að hann hefur ákveðið að hætta í stjórnmálum.

„Ég er búinn að gera grein fyrir því af hverju ég er að hætta í pólitík. Ég er búinn að vera hátt í fjóra áratugi í pólitík. Sumum þykir það nóg, aðrir vilja hafa mig lengur, eins og gengur. Ég er sjálfur ágætlega sáttur og stend stoltur upp frá því,“ segir hann.

Gömul saga og ný að fyrirtæki skipti sér af prófkjöri

Hann segir að lengi hafi verið deilt um afskipti fjársterkra fyrirtækja af prófkjörum stjórnmálaflokka.

„Við höfum gamlar sögur um áhrif fyrirtækja, ef ég tek bara minn flokk þar sem fyrirtæki hafa reynt að hafa áhrif á niðurstöður prófkjöra. Það hafa allir frelsi til að hafa sínar skoðanir og standa fyrir þeim. Sumt af þeim vinnubrögðum sem hefur verið viðhaft í þeim fellur mér miður í geð.“

Hefur verið í samskiptum við Pál Steingrímsson

Einn þeirra sem fjallað hefur verið um undanfarið er Páll Steingrímsson, skipstjóri hjá Samherja. Páll er meðal þeirra sem eru í svokallaðri skæruliðadeild Samherja. Lögð hefur verið fram kæra til lögreglunar á Norðurlandi eystra vegna þjófnaðar á síma Páls á meðan hann lá á sjúkrahúsi í öndunarvél. Kristján segir að hann hafi verið í samskiptum við Pál.

Hafa einstaklingar á vegum Samherja úr þessari skæruliðadeild verið í samskiptum við þig og óskað eftir upplýsingum og þú liðsinnt þeim?

„Ég hef verið í samskiptum við Pál Steingrímsson sem ég þekki bara frá því að hann var nemandi í Stýrimannaskólanum á Dalvík eins og aðra íbúa í Norðausturkjördæmi. Ég hef aldrei verið í samskiptum við neina skæruliðadeild og hef ekki hugsað mér að taka upp slíkt verklag,“ segir Kristján Þór. 

Þú þekkir allt þetta fólk, þú þekkir stjórnendur fyrirtækisins, þekkir fyrirtækið mjög vel og ert í samskiptum við þá. Hefurðu tekið upp símann og gefið þeim góð ráð eftir þessar seinstu uppljóstranir?

„Eins og ég segi, ég þekki Pál Steingrímsson mjög vel og hef margoft talað við Pál eins og marga aðra starfsmenn í þessu fyrirtæki, eins og aðra kjósendur í Norðausturkjördæmi eða annars staðar á landinu. Ég hef talað við trillukarl hér og bónda þar og svo framvegis.“

Höskuldur Kári Schram fréttamaður ræddi við Kristján að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. Viðtalið má sjá hér að ofan.