Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hefur ekki tíma til að vera hefðbundið gamalmenni

Mynd: RÚV / RÚV

Hefur ekki tíma til að vera hefðbundið gamalmenni

28.05.2021 - 13:17

Höfundar

Þórhalli Sigurðssyni, sem einnig er þekktur sem Laddi, er ýmislegt til lista lagt. Hann stendur í ströngu þessa dagana enda opnaði hann nýverið málverkasýningu. Auk þess keppir hann með íslenska landsliðinu í golfi, það er að segja öldungalandsliðinu. Hann segist ekki geta flokkað sig sem hefðbundið gamalmenni þrátt fyrir golfáhugann. „Ég má ekki vera að því,” segir Þórhallur í samtali við Síðdegisútvarpið á Rás 2.

Hann hefur málað talsvert mikið síðustu tíu árin og er þetta önnur málverkasýning hans. Síðasta hélt hann sýningu árið 2019. Þrátt fyrir að hafa ekki byrjað ungur að mála segist Þórhallur hafa verið að teikna og krassa alla tíð. Hann hélt þó ekki upp á þær myndir. „Þeim var fleygt jafnóðum. Þetta var bara svona krass hingað og þangað. Ég mátti ekki sjá autt blað, þá krassaði ég á það,” segir Þórhallur.

Í dag málar hann talsvert af fígúrum, þar á meðal álfa sem hann segir að séu úr hrauninu í Hafnarfirði. Hafnarfjörður hefur verið honum mikill innblástur. „Ég er fæddur þarna í hrauninu á meðal álfa. Þetta byrjaði með svoleiðis teikningum. Svo er ég kominn yfir í strigann og farinn að mála málverk.” 

Best finnst Þórhalli að mála seinni part dags. Hann segist yfirleitt mála milli fjögur og sjö en ef hann er sérstaklega spenntur fyrir einhverju verkefni byrjar hann morguninn á því. 

Hann á ekki sérstakan málaraslopp og hefur ekki þorað að fara í sloppana sem hann klæddist sem Saxi læknir, Skúli rafvirki eða Magnús bóndi. „Þeir eru heilagir,” segir Þórhallur. 

Málverkasýningin markar ekki endinn á málaraferli Þórhalls. „Þetta bara versnar, þetta ágerist. Ég fékk góðan tíma núna í COVID-veseninu. Ég gat málað næstum því á hverjum einasta degi,” segir Þórhallur.

Málverkasýningin er í Gallerý Smiðjunni í Ármúla 36. „Stundum er ég við, ef fólk hringir í mig og biður mig um að koma og vera á staðnum, þá geri ég það og er með smá uppistand. Þá kannski fæ ég mér slopp,” segir Þórhallur sem bendir á að sýningin sé opin til 10. júní, því þurfi ekki allir að drífa sig af stað í einu, enda aðeins pláss fyrir 150 manns í senn.