Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hættu- og óvissustigi aflétt um sunnanvert landið

28.05.2021 - 13:58
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Ríkislögreglustjóri hefur ákveðið að að aflétta hættu- og óvissustigi vegna gróðurelda frá Austur-Skaftafellssýslu að Hvalfjarðarbotni í samráði við lögreglustjórana á Suðurlandi, Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu.

Þessi ákvörðun var tekin á fundi með fulltrúum slökkviliða, lögreglu og almannavarna í morgun sem haldinn var vegna þeirrar hættu sem hefur verið á gróðureldum um stóran hluta landsins undanfarið. 

Hættustig gildir áfram vegna möguleika á gróðureldum á Vesturlandi, Vestfjarðakjálka og Norðurlandi vestra eða frá Hvalfjarðarbotni í suðri að Tröllaskaga í norðri.

Óvissustig gildir frá Siglufirði og austur á Sandvíkurheiði í umdæmi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra.

Búist er við talsverðri rigningu með köflum um helgina suðaustan-, sunnan- og suðvestanlands, en á Vesturlandi og Vestfjörðum fer ekki að rigna að ráði fyrr en á laugardagseftirmiðdag eða laugardagskvöld.

Ekki er spáð mikilli úrkomu á norðanverðu landinu, en þó gætu verið stöku skúrir þar, einkum á sunnudag. 

Brýnt er fyrir almenningi að sýna áfram aðgát með opinn eld þar sem hættu- og óvissustig gildir, ekki síst þar sem gróður er þurr. Verði fólk vart við eld í gróðri skal umsvifalaust hringja í 112.