Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm silkimjúk og seiðandi fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: Jorja Smith - Bussdown

Fimm silkimjúk og seiðandi fyrir helgina

28.05.2021 - 13:15

Höfundar

Það er silkimjúk og seiðandi tónlist í fimmunni fyrir helgina en við sleppum þó allri væmni og það er stutt í stuðið. Jorja Smith ríður á vaðið með karabískum takti og trega, PawPaw Rod er á svipuðum en aðeins súrari slóðum og svo er það dreymandi raftónlist frá Daniel Avery, Paraleven ásamt Nathan Ball og Burial sem startar helginni.

Jorja Smith ásamt Shaybo – Bussdown

Enska tónlistarkonan Jorja Smith hefur verið nokkuð áberandi í bresku tónlistarsenunni síðustu þrjú ár og sent frá sér nokkra stóra söngla, bæði ein og í samstarfi við aðra. Lagið Bussdown kom út í síðustu viku og hefur gengið nokkuð vel á streymisveitum enda silkimjúkur og seyðandi slagari með karabískum takti og trega.


PawPaw Rod – Glass House

Frá Oklahoma kemur PawPaw Rod sem gefur út hjá plötufyrirtækjunum Channel Tres og Jpegmafia Godmode. Hann er tiltölulega nýr í bransanum og Glass House er annar söngullinn sem hann sendir frá sér en það er fínasta hip hop- og sjöusálarbræðingur sem hefur gengið vel á streymisveitum.


Daniel Avery – Hazel and Gold

Enski raftónlistarmaðurinn og plötusnúðurinn Daniel Avery hefur verið starfandi síðustu tíu ár, bæði undir sínu nafni og sem upptökustjórinn Stopmakingme. Hazel and Gold er annað lagið sem Avery sendir frá sér af plötunni Together in Static sem kemur út 24. júní hjá Phantasy + Mute.


Paraleven ásamt Nathan Ball – Lucid

Enski tónlistarmaðurinn Paraleven hefur sent frá sér dreymandi rafpoppslagara, Lucid, þar sem hann vinnur með landa sínum, söngvaranum Nathan Ball sem er kannski þekktari fyrir silkimjúka folk-stemmningu.


Burial – Dark Gethsemane

Enski raftónlistargúrúinn Burial sendi nýlega frá sér fjögurra laga þröngskífu, Shock Power of Love, í samstarfi við landa sinn Blackdown. Lagið Dark Gethsemane er tekið af henni, en kannski er ekki rétt að kalla það lag –- þetta er meira svona hressandi og jákvætt ferðalag.


Fimman á Spotify