Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

BHM: Virði háskólamenntunar einna minnst á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Fjárhagsvirði háskólamenntunar er einna minnst á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd. Þetta er mat aðalfundar Bandalags háskólamanna sem brýnir stjórnvöld til að huga að áhrifum skattkerfisbreytinga á mun ráðstöfunartekna eftir menntastigi.

BHM telur að gildi háskólamenntunar endurspeglist ekki í hærri tekjum en hjá þeim sem minni menntun hafi, á borð við framhaldsskólamenntun. Aðalfundurinn var í gær, miðvikudag 27. maí. 

„Brýnt er að hækka hámarksfjárhæð almennra ráðningarstyrkja og veita þá til lengri tíma en nú er gert. Einnig þarf að lengja tímabil ráðningarstyrkja sem eru sérstaklega veittir til að ráða fólk sem hefur verið atvinnulaust til langs tíma,“ segir í tilkynningu frá BHM. 

Félagið skorar jafnframt á stjórnvöld að gera allt sem í þeirra valdi stendur að tryggja að háskólamenntuðu fólki á atvinnuleysisskrá standi til boða störf sem hæfi menntun þess, reynslu og hæfni. Rúmlega fimm þúsund háskólamenntaðra voru á atvinnuleysisskrá í apríl.

Auk þess sem að framan greinir ályktaði aðalfundur BHM um styttingu vinnuvikunnar og blandað starfsumhverfi staðvinnu og fjarvinnu.