Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Bandaríkin og Ísrael ósátt við rannsókn

epa09230267 Palestinians sit around a fire between their families destroyed houses in Beit Hanun town northern Gaza Strip on, 26 May 2021. Palestinian families started returning to their destroyed houses after 11 days of fighting a ceasefire came into effect on 21 May between Israel and militants in Gaza strip under an Egyptian initiative for an unconditional ceasefire. At least 232 Palestinians were killed in the Israeli offensive according to Palestinian health ministry, while at least 12 Israelis killed in rocket attacks from Gaza.  EPA-EFE/MOHAMMED SABER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær að rannsaka átökin á milli Ísraels og Hamas fyrr í mánuðinum, við litla hrifningu Bandaríkjanna og Ísraels. 24 ríki greiddu atkvæði með tillögunni en níu gegn henni að sögn fréttastofu BBC.

Bandaríkin mótmæltu ákvörðuninni á þeim forsendum að með rannsókn sé vopnahléi fyrir botni Miðjarðarhafs stofnað í hættu. Bandaríkin eru aðeins með áheyrnarfulltrúa í mannréttindaráðinu og því ekki með atkvæðisrétt. Að atkvæðagreiðslunni lokinni sendi bandaríska sendinefndin hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf frá sér yfirlýsingu um að það sé verulega óheppilegt að mannréttindaráðið valdi þessari röskun sem geri ekkert til að bæta ástandið, á meðan Bandaríkin og aðrar þjóðir vinni að því að viðhalda og efla vopnahléið, tryggja mannúðaraðstoð til Gaza og vinna hörðum höndum að viðvarandi friði á svæðinu. Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði þetta enn eitt dæmið um andúð mannréttindaráðsins á Ísrael.

Í tillögunni er kallað eftir því að rannsóknarnefnd verði skipuð til að rannsaka hvort mannréttindabrot hafi verið framin í Ísrael, Vesturbakkanum eða á Gaza. Eins er kallað eftir rannsókn á öllum undirliggjandi ástæðum sífelldrar spennu, óstöðugleika og ofbeldi.

Michele Bachelet, stjórnandi mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði við upphaf fundarins að hún væri áhyggjufull yfir þeim fjölda sem féll í loftárásum á Gaza. Hún sagði líkur á því að árásir Ísraels heyrðu undir stríðsglæpi. Eins sagði hún flugskeytaárásir Hamas á Ísrael glæpsamlegar og klár brot á alþjóðlegum mannúðarlögum.

Minnst 242 Palestínumenn féllu á Gaza og 13 voru drepnir í Ísrael þá ellefu daga sem átök stóðu yfir. Vopnahléssamningar náðust síðasta föstudag með milligöngu Egypta.