Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tillaga til að sporna gegn umframafla á strandveiðum

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Landssamband smábátaeigenda vill að sjómenn sem veiða umfram leyfilegan dagskammt á strandveiðum fái tækifæri næsta veiðidag til að leiðrétta skekkjuna. Í maí hefur strandveiðiflotinn veitt rúm 26 tonn umfram leyfilegan afla.

Hámarksafli hvern dag á strandveiðum er 650 þorskígildi. Það jafnast á við 774 kíló af óslægðum þorski.

Mikilvægt að halda sig við dagskammtinn

Verðmæti fyrir allan afla sem er umfram þessi mörk rennur beint í ríkissjóð auk þess sem umframaflinn dregst frá heildarkvóta tímabilsins. „Og við höfum náttúrulega verið að reyna að höfða til manna um að reyna að halda sig við mörkin. Sem er mjög mikilvægt að menn geri,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.

Hægt verði að leiðrétta umframaflann næsta veiðidag

LS hefur nú lagt til að tekin verði upp sú regla að þegar sjómenn fari yfir dagskammtinn gefist þeim svigrúm til að leiðrétta það næsta veiðidag á eftir. Örn segir að menn missi þó þennan rétt ef aflinn fari yfir 800 kíló eftir daginn. „Þannig að ef þeir fara kannski upp í 784 kíló, sem sagt tíu kíló fram yfir, þá geta þeir næsta dag, eða í næsta róðri, verið tíu kílóum undir. Þá kemur ekki þessi umframafli hjá þeim og þeir fá aflaverðmæti fyrir báða dagana óskert.“   

Umframaflinn orðinn tæp 26 tonn

Strandveiðitímabilið hófst þriðja maí og nú á síðasta veiðidegi mánaðarins er umframaflinn orðinn tæp 26 tonn. Samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu hefur þetta þó farið minnkandi eftir að þar var farið að birta lista með nöfnum þeirra báta sem landa umfram leyfilegan dagskammt. Örn er þó vongóður um að þeirra tillögur verði samþykktar. „Já, ég ætla að vona það að þetta bara líti dagsins ljós á næstu dögum.“