Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Skiptir engu máli fyrir það sem við erum að gera núna“

27.05.2021 - 22:51
Security personnel gather near the entrance of the Wuhan Institute of Virology during a visit by the World Health Organization team in Wuhan in China's Hubei province on Wednesday, Feb. 3, 2021. (AP Photo/Ng Han Guan)
Öryggisverðir við veirurannsóknarstofuna í Wuhan í morgun. Mynd: ASSOCIATED PRESS - AP
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, gaf stutt en skýrt svar eftir upplýsingafundinn í morgun þegar hann var spurður út í fyrirhugaða rannsókn á því hvort kórónuveiran sem veldur COVID-19 ætti uppruna sinn á tilraunastofu í kínversku borginni Wuhan. „Ég segi ekki neitt við þessu.“ Bandaríkjaforseti hefur falið leyniþjónustustofnunum að komast til botns í málinu við litla hrifningu kínverskra ráðamanna.

Strax á fyrstu dögum faraldursins fóru sögusagnir á kreik um að hin nýja kórónuveira ætti uppruna sinn á tilraunastofu hjá veirufræðistofnun kínversku borgarinnar Wuhan þar sem fyrsta smitið greindist í desember árið 2019. 

Ástæðan fyrir því að umræðan hefur sprottið upp aftur eru fréttir í bandarískum fjölmiðlum um að þrír starfsmenn tilraunastofunnar hafi nokkrum mánuðum áður en fyrsta smitið var staðfest leitað á sjúkrahús með veikindi sem svipuðu mjög til COVID-19 sýkingar. 

Trump og „Kung-flensan“

Veirufræðistofnunin í Wuhan er hönnuð til þess að rannsaka lífshættulega og bráðsmitandi sýkla.

Meðal starfsmanna er veirufræðingurinn Shi Zhengli sem stundum hefur verið kölluð „leðurblökukonan“ vegna rannsókna á kórónuveirunni í leðurblökum. 

Shi sagði í svari til vísindaritsins Science í júlí í fyrra að starfsmenn tilraunastofunnar hefðu fyrst greint þessa nýju veiru í sjúklingum með lungnabólgu seint á árinu 2019. „Fyrir það höfðum við aldrei komist í snertingu við þessa veiru, rannsakað hana eða vitað að hún væri til.“ Hún taldi starfsmenn stofnunarinnar eiga inni afsökunarbeiðni hjá Donald Trump.

Það var einmitt Trump sem gekk hvað lengst í að halda kenningunni um tilraunastofuna í Wuhan á lofti. Hann kallaði kórónuveiruna annað hvort Kína-vírusinn eða Kung-flensuna. Hann sagði í yfirlýsingu í gær að loksins væri fólk að átta sig á að hann hefði haft rétt fyrir sér allan tímann.

Upplýsingar sem gætu komið í veg fyrir fleiri farsóttir

Bandaríkjastjórn er ekki sú eina sem hefur sýnt þessu áhuga. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, sendi sérfræðinga sína til Wuhan til að rannsaka málið. Tilgangurinn var ekki að finna sökudólg heldur var talið að þessar upplýsingar gætu reynst mikilvægar til að koma í veg fyrir fleiri farsóttir.

Það skyggði óneitanlega á rannsóknina hversu treg kínversk yfirvöld reyndust til samstarfs.  

Sérfræðingarnir fengu loks að fara til Kína, rúmu ári eftir að farsóttin braust út, og niðurstaða þeirra var að mestar líkur væru á því að veiran hefði borist úr leðurblökum yfir í annað dýr og þaðan í menn. Ólíklegt væri að veiran hefði orðið til á rannsóknarstofu.

Áðurnefnd Shi hefur jafnframt bent á að WHO hafi mælt mótefni hjá starfsmönnum stofnunarinnar og þeir hafi ekki reynst vera með slíkt. 

Skýrsla WHO sannfærir ekki bandarísk yfirvöld

En nú hefur Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, fyrirskipað leyniþjónustustofnunum sínum að rannsaka málið frekar.

Hann sagðist hafa óskað eftir skýrslu þegar hann tók við forsetaembættinu og að nú þyrfti að fylgja henni eftir. Ekki væri búið að svara því með fullnægjandi hætti hvort veiran hefði borist frá sýktu dýri í menn eða hvort ástæðan væri „slys á tilraunastofu.“  

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, lýsti yfir stuðningi við Biden en í Kína brugðust stjórnvöld ókvæða við. Bandaríkjastjórn var sökuð um ófrægingarherferð og að henni stæði á sama hvað væri rétt og hvað rangt. „Bandaríkin hafa engan áhuga á vísindalegri rannsókn um upphaf farsóttarinnar,“ sagði talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins.

Geta velt þessu fyrir sér aftur á bak og áfram

Magnús Gottfreðsson, prófessor í smitsjúkdómalækningum, sagði í kvöldfréttum RÚV að ekki væri hægt að slá tilgátuna um tilraunastofuna út af borðinu. „En til þess að svara spurningunni þá þarf auðvitað víðtækt samstarf milli þeirra aðila sem vilja komast að hinu sanna. Og manni sýnist að hnífurinn standi í kúnni nákvæmlega þar. Samstarfið hefur kannski ekki verið nægilega gott. Og upplýsingarnar sem hafa verið gefnar hafa ekki náð að svara þessari grundvallarspurningu.“

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hafði á þessu litla skoðun í samtali við fréttastofu eftir upplýsingafund almannavarna í morgun. „Menn geta velt þessu fyrir sér aftur á bak og áfram og hafa raunar gert það allan tímann. Þetta skiptir engu máli fyrir það sem við erum að gera núna. Auðvitað skiptir það máli í heildarsamhenginu að komast að þessu en það er ekki stóra málið í þessu núna.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV