Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Skæruliðadeild Samherja er ekki þáttur á Netflix

27.05.2021 - 12:55
Mynd: Pixabay / -
Í síðustu viku bárust fréttir unnar upp úr samskiptum fólks sem tengist Samherja með einhverjum hætti og tilraunum þeirra til að hafa áhrif á umræðu um fyrirtækið. Hópurinn kallar sig „skæruliðadeildina“ og var ræstur út árið 2019 eftir að ­greiðsl­ur til namib­ískra stjórn­mála­manna voru afhjúpaðar.

Skæruliðadeild Samherja var örskýrð í Hádeginu á Rás 1. Hlustaðu á örskýringuna í spilaranum hér fyrir ofan.

En hvað gerði þessi skæruliðadeild og voru greinar skrifaðar í nafni skipstjóra eina vopnið hennar? Við skulum svara þessum spurningum og nokkrum í viðbót í örskýringu vikunnar en byrjum á því að rifja upp um hvað Namibíumálið snýst. 

Í stuttu máli þá snýst Samherjamálið um greiðslur Samherja til namibískra stjórnmála- og embættismanna í skiptum fyrir verðmætan hestamakrílskvóta þar í landi. 

Eftir að Kveikur, Stundin og sjónvarpsstöðin Al Jazeera fjölluðu um málið voru sjávarútvegsráðherra og dómsmálaráðherra Namibíu handteknir ásamt hópi annarra manna sem áttu það sameiginlegt að hafa fengið greiðslur frá Samherjafélögum. Á Íslandi er málið enn í rannsókn en forstjóri Samherja ásamt fimm núverandi og fyrrverandi starfsmönnum fyrirtækisins eru með réttarstöðu sakbornings í málinu.

Málið teygir anga sína víða. Í Noregi hefur bankinn DNB verið sektaður um sex milljarða íslenskra króna fyrir slæmt eftirlit með peningaþvætti, meðal annars í viðskiptum milli félaga Samherja, og í Færeyjum hafa skattayfirvöld kært Tindhólm, dótturfélag Samherja, til lögreglu. Félagið hefur endurgreitt rúmar 340 milljónir til yfirvalda þar vegna vangoldinna skatta.

Og þá hefst saga skæruliðadeildarinnar; hvað var það sem hún gerði?

Það skal tekið fram að eftirfarandi eru ekki lýsingar á nýrri seríu á Netflix. Hér er á ferðinni alvörufólk að gera hluti í alvörunni. 

Á meðal þess sem skæruliðadeildin gerði, samkvæmt því sem kemur fram í samtölum þeirra, var að skrifa greinar og birta í fjölmiðlum í nafni skipstjóra hjá Samherja. Reynt var að hafa áhrif á formannskjör í Blaðamannafélagi Íslands og prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, var lýst sem „þeirra manni“. 

Upplýsingum var safnað um blaðamenn, reynt að gera þá ótrúverðuga og jafnvel vanhæfa til að fjalla áfram um Samherja og það var meira að segja haft samband við ritstjóra blaðsins Dimmalætting í Færeyjum í þeim yfirlýsta tilgangi að reyna að rægja færeyskt fréttafólk. 

Hallgrímur Helgason rithöfundur blandaðist líka í málið þegar skæruliðadeildin ræddi um að koma á hann höggi vegna Teslu, sem hún taldi hann eiga eftir að hafa njósnað um heimili hans. Ekkert varð úr því eftir að í ljós kom að Teslan var ekki í hans eigu heldur nágranna hans.

Loks vakti munnsöfnuður skæruliðadeildarinnar athygli og þá sérstaklega þegar talað var um að hún væri með aðgerðum sínum að stinga og þyrfti að snúa og svo salta í sárið. 

En hvernig rötuðu þessi samskipti í fjölmiðla?

Í umfjöllun Kjarnans um samskipti skæruliðadeildarinnar kemur fram að umrædd gögn hafi borist frá þriðja aðila. Þá er tekið fram að fjöldi fordæma séu fyrir því að fjölmiðlar birti gögn sem eigi erindi við almenning án þess að hafa upplýsingar um hvernig þeirra var aflað.

Í vikunni greindi sjávarútvegsvefur Morgunblaðsins frá því að síma Páls Steingrímssonar, skipstjóra og liðsmanns skæruliðadeildarinnar, hafi verið stolið á meðan hann lá milli heims og helju á sjúkrahúsi. Haft er eftir lögmanni Samherja að þjófnaðurinn hafi verið kærður til lögreglu.

Þá er eðlilegt að spyrja sig: Hvað gerist næst?

Góð spurning. Samherji hefur ekki tjáð sig um starfsemi skæruliðadeildarinnar en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er búin að því og segir að fyrirtækið sé komið langt út fyrir mörk sem talin eru eðlileg í samfélaginu. 

Hvaða afleiðingar það hefur að fara yfir þessi mörk er enn á huldu.